Kevin De Bruyne var spurður út í helsta muninn á liði Manchester City og Liverpool í aðdraganda stórleiks helgarinnar.
Manchester City og Liverpool hafa verið bestu lið Englands undanfarin ár, þar sem City hefur þó haft betur í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn í þrjú skipti af síðustu fjórum tímabilum.
Staðan nú er óvanaleg. Fyrir leik liðanna á sunnudag er City í öðru sæti deildarinnar með 23 stig. Liverpool er aðeins með tíu stig um miðja deild.
„Þeir fara meira upp og niður völlinn á meðan við stjórnum leikjum meira. Þegar þú stjórnar leik áttu ef til vill meira möguleika á að vinna hann,“ segir De Bruyne um muninn á liðunum tveimur.
Belginn býst við erfiðum leik gegn Liverpool á sunnudag.
„Ég held að Liverpool verði upp á sitt besta í leiknum. Þeir hafa tapað stigum en þetta er samt Liverpool og ég held að þeir verði góðir, þannig sé ég þetta. Ég elska stóra leiki, gott andrúmsloft. Þetta er sérstakur leikur. Það er alltaf erfitt að spila á útivelli gegn stóru sex liðunum. Við höfum samt gert vel í þeim leikjum undanfarin ár.“