Í borginni Odessu í suðurhluta Úkraínu hefur stórt skilti með mynd af auðkýfingnum Elon Musk verið fjarlægt. Þetta má rekja til þess að Musk tísti um sína sýn fyrir endalok stríðsins í Úkraínu en sú lausn fólst í því að Úkraína ætti að gefa eftir Krímskagann og fleiri svæði til Rússlands.
Sjá einnig: Elon Musk sagður hafa rætt við Pútín áður en hann birti tíst
Stjórnvöld í Rússlandi hafa hrósað Musk fyrir þessa tillögu og stjórnmálafræðingurinn Ian Bremmer sem er yfir Eurasia Group, sagðist hafa heyrt það frá Musk sjálfum að sá síðarnefndi hafi ráðfært sig við sjálfan Vladimir Pútín Rússlandsforseta áður en hann birti tístið. Musk hefur þó neitað því að slíkt hafi átt sér stað sem Bremmer segist að sama bragði standa við orð sín – Musk hafi sagt þetta við hann.
Úkraínumenn hafa þó lítið gefið fyrir þessa töfralausn sem Musk lagði til og nú hefur mynd Musk verið fjarlægð af vegg í Odessu þar sem hengdar hafa verið upp stórar myndir af þeim frægu einstaklingum sem hafa veitt baráttu Úkraínu lið sitt. Musk fór þar upp eftir að hann tengdi Úkraínu inn á Starlink netið til að tryggja þeim aðgengi að netinu. En nú hefur hann fallið í ónáð.
„Auglýsingadeildin fjarlægir mynd af Elon Musk af skiltunum sem við notum til að þakka fyrir stuðninginn við Úkraínu,“ sagði á Telegram-rás sem er talin tengjast borgaryfirvöldum Odessu. Með því var birt mynd af starfsmanni borgarinnar festa pappír yfir myndina af Musk.
A photo of Elon #Musk, which was posted as a sign of gratitude for his support of #Ukraine, is being removed in #Odesa. pic.twitter.com/ZjljZjhEWh
— NEXTA (@nexta_tv) October 12, 2022
Aðrir frægir sem myndir hafa verið festar upp af eru leikarinn Benedickt Cumberbatch fyrir að hafa hýst flóttamenn frá Úkraínu á heimili sínu, leikkonan Emilia Clarke fyrir stuðning sinn og aðstoð við fjáröflun og svo Leonardo DiCaprio sem hefur stutt Úkraínu og eins gekk sá orðrómur, sem hefur þó verið afsannaður, að hann hafi gefið mikið fé til Úkraínu og að fjölskylda hans kæmi frá Odessu.
Úkraínumenn hafa einnig bent á að eftir að Musk fór að viðra hugmyndir sem ríma við áherslur Rússlands í stríðinu hafi Starlink hætt að virka eins og það hafi áður gert.
Earlier this year, @ElonMusk called himself a "free speech absolutist" in response to calls to block access to Russian news sources on Starlink.
Now, he has blocked access to Starlink for Ukrainians in Crimea. https://t.co/6qbTiYBodU
— Frank Luntz (@FrankLuntz) October 12, 2022
Samkvæmt frétt Business Insider hefur Starlink tengingin undanfarið verið stopul sérstaklega á svæðum undir yfirráðum Rússlands og hefur fólk jafnvel velt fyrir sér hvort Musk hafi óvirkt tenginguna á þeim svæðum. Mögulega til að koma í veg fyrir að Rússland misnoti tenginguna.
Ian Bremmer sagði á mánudaginn að Musk hafi einnig staðfest í samtali við hann að gervihnattatengingin væri viljandi gerð óvirk á tilteknum svæðum. Hann hafi sagt að varnarmálaráðherra Úkraínu hafi beðið um að Krímskaginn yrði tengdur inn á Starlink en Musk hafi hafnað því af ótta við að þá myndi stríðið stigmagnast og líkur aukast á notkun kjarnorkuvopna.
Elon Musk hefur þó einnig neitað þessu opinberlega og bent á að notkun Starlink í Úkraínu sé sífellt að aukast.
Starlink data usage growth in Ukraine pic.twitter.com/c4IWNwKwLR
— Elon Musk (@elonmusk) October 13, 2022