Thomas Tuchel gæti hugsað sér að taka við enska landsliðinu einn daginn ef marka má nýjustu fréttir.
Þjóðverjinn var rekinn frá Chelsea fyrr í haust. Hann tók við liðinu á miðju tímabili 2020-2021. Hans stærsta afrek var án efa að stýra Lundúnaliðinu til sigurs í Meistaradeild Evrópu vorið 2021.
Yfirstandandi tímabil fór hins vegar ekki vel af stað og ákvað eigandi Chelsea, hinn bandaríski Todd Boehly, að láta hann fara.
Tuchel er því atvinnulaus. Honum virðist ekki liggja mikið á að taka að sér nýtt starf í þjálfun, en hann hafnaði því að taka við Bayer Leverkusen í heimalandinu á dögunum.
Tuchel er þó opinn fyrir því að þjálfa enska landsliðið í framtíðinni.
Gareth Southgate er nú landsliðsþjálfari Englands. Hann er undir nokkurri pressu. Enska landsliðið hefur ekki leikið vel undanfarið ár eða svo, allt frá því það tapaði úrslitaleik Evrópumótsins gegn Ítalíu í júlí í fyrra.