Síðar fékk þessi tegund nafnið Panesthia lata (P.lata), trjáétandi Lord Howe eyju kakkalakkinn. Mikið var sagt af honum á eyjunni og að hann gegndi mikilvægu hlutkerfi í vistkerfi eyjunnar og væri fæðuuppspretta fyrir margar fuglategundir.
Rottur bárust til eyjunnar 1918 úr skipsflaki. Í lok tuttugustu aldar fannst þessi kakkalakkategund ekki á eyjunni þrátt fyrir mikla leit áratugum saman. Talið var að hún hefði dáið út eftir að rottur bárust til eyjunnar.
En gat hugsast að hún hefði lifað af á einhverju órannsökuðu svæði á eyjunni?
2019 hófst lokakaflinn í rottuútrýmingarherferð yfirvalda á eyjunni. Hún var árangursrík en umdeild.
Í kjölfarið fóru ástralskir vísindamenn til eyjunnar til að rannsaka hvort enn væru einhverjir kakkalakkar af þessari tegund þar. Ef ekki þá höfðu þeir í hyggju að koma upp nýjum stofni þar en það var hægt vegna þess að árið 2001 fundust kakkalakkar af þessari tegund á Blackburn og Roach eyjunum. Þetta eru litlar eyjur nærri Lord Howe eyju. Skýrt er frá þessu á vef The Conversation.
Þar er því velt upp af hverju einhver hafi viljað koma upp kakkalakkastofni á eyjunni þar sem kakkalakkar þykja nú með ógeðfelldustu dýrunum á jörðinni. Bent er á að P.lata séu ansi sætir og heillandi. Þeir hafi engan áhuga á að fara inn í hús. Þeir eru vængjalausir, um 4 cm á lengd og fela sig í skóglendi þar sem þeir grafa sig niður og nærast á laufum og rotnandi trjám að næturlagi.
Í júlí var farið í leiðangur til Lord Howe eyju til að leita að P.lata á svæði á norðurhluta eyjunnar. Þar átti að velta nokkrum steinum við til að kanna hvort P.lata væri þar. Ekki þurfti að velta mörgum því undir þeim fyrsta voru nokkrir P.lata kakkalakkar. Nokkrir til viðbótar fundust í nokkurra metra fjarlægð en fleiri fundust ekki þrátt fyrir mikla leit víða á eyjunni.