Þetta sagði Biden í viðtali við CNN í gær. „Ég held að hann sé skynsamur maður sem hafi misreiknað sig illilega,“ sagði Biden um Pútín.
Nýlega sagði Biden að bandarísk stjórnvöld væru að leita eftir „afrein“ fyrir Pútín svo hann geti dregið úr hernaðinum í Úkraínu áður en málin þróast þannig að gripið verði til gjöreyðingarvopna.
Í síðustu viku sendi Biden frá sér alvarlega aðvörun og sagði að hætta sé á „kjarnorkuheimsendi“. Þetta sagði hann á fundi Demókrata í New York. Þar lagði hann áherslu á að Pútín sé ekki að grínast þegar hann ræði um notkun kjarnorkuvopna eða efnavopna.
Í viðtalinu við CNN sagðist Biden telja að Pútín hafi vanmetið mótspyrnu Úkraínumanna: „Ég held að hann hafi talið honum yrði tekið opnum örmum og að móðir Rússland ætti heimili í Kyiv þar sem hann yrði boðinn velkominn. Ég held að hann hafi bara misreiknað sig,“ sagði Biden.