Á tólfta tímanum valt bifreið á Þingvallavegi. Ökumaðurinn, sem var einn á ferð, komst sjálfur út úr bifreiðinni. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Bráðadeild. Ekki er vitað um alvarleika meiðsla hans. Hann er grunaður um ölvun við akstur.
Í Kópavogi fundust kannabisplöntur og búnaður til fíkniefnaframleiðslu í iðnaðarhúsnæði síðdegis í gær. Hald var lagt á plönturnar og búnaðinn.
Í Grafarholti var kona handtekin á tólfta tímanum en hún var undir áhrifum fíkniefna og öskraði stanslaust og var óviðræðuhæf. Hún var vistuð í fangageymslu.
Í Háaleitis- og Bústaðahverfi var bifreið ekið út af vegi og upp á umferðareyju. Ökumaðurinn fann til eymsla í höfði og hálsi. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Bráðadeild. Bifreið hans var flutt af vettvangi með dráttarbifreið.
Á öðrum tímanum í nótt var bifreið ekið á ljósastaur í Árbæjarhverfi. Ökumaðurinn yfirgaf vettvang. Bifreiðin var fjarlægð með dráttarbifreið og Orkuveitunni tilkynnt um skemmdirnar á ljósastaurnum.
Þrír ökumenn voru handteknir, grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
Fimm ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Kringlumýrarbraut.
Í Miðborginni var maður í annarlegu ástandi handtekinn á níunda tímanum. Lögreglan var búin að hafa ítrekuð afskipti af honum áður. Hann var vistaður í fangageymslu.