Sigurður Brynjar Jensson, sem fæddur er árið 1996, var síðastliðinn miðvikudag sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ofbeldisárásir á tvo fangaferði í fangelsinu á Hólmsheiði.
Atvikið átti sér stað 5. mars árið 2021. Sigurður var ákærður af héraðssaksóknara fyrir brot gegn valdstjórninni fyrir að hafa skallað fangavörð, kýlt hann og síðar bitið annan fangavörð í upphandlegg, þennan umrædda dag. Mun síðarnefndi fangavörðurinn hafa hlotið tvö sár með bitförum um það bil 3 cm í þvermál.
Sigurður játaði brot sitt að fullu fyrir dómi og var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu og Sigurður var sakfelldur. Hann á að baki langan sakaferil, allt aftur til ársins 2013, þó að hann sé aðeins 26 ára gamall.
Þrátt fyrir alvarlega árás á fangaverðina og langan brotaferil hlaut Sigurður vægan dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 5. október síðastliðinn. Var hann dæmdur í 60 daga fangelsi.