Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er mættur út til Portúgal til að styðja íslenska kvennalandsliðið gegn heimakonum í kvöld.
Portúgal og Ísland mætast í umspilsleik um sæti á lokakeppni HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.
„Ég er fullur tilhlökkunnar. Heimamenn eru með hörkulið og við líka. Það er í raun magnað að geta haft þennan frábæra hóp fólks með okkur og ég veit að Íslendingar munu láta vel í sér heyra þegar leikurinn hefst,“ segir Guðni.
„Sem þjóð deilum við um hitt og þetta eins og vera ber. En þegar stelpurnar eða strákarnir okkar eru í íþróttum, listum og menningu þá styðjum við okkar fólk, þetta sameinar okkur.“
Guðni spáir þá íslenskum sigri í dag, en viðtalið við hann í heild má sjá hér að neðan.