Um sex mánuðir eru síðan fregnir bárust af því að leikarinn, sem vanalega hefur verið kallaður geðþekkur, Bill Murrey hafi verið sakaður um ótilhlýðilega háttsemi á tökustað kvikmyndarinnar Being Mortal.
Ekki hefur verið greint frá því hvað hafi falist í þessari háttsemi leikarans fyrr en nú. Bill Murrey, sem er 72 ára gamall, á að hafa sýnt af sér hegðun á tökustað sem varð til þess að leikstjórinn, grínistinn Aziz Ansari, hafi þurft að stöðva framleiðslu myndarinnar. Murrey hefur sjálfur lýst því við fjölmiðla að hann hafi „gert nokkuð sem ég taldi vera fyndið, en því var ekki tekið þannig.“
Puck news greina nú frá því að samkvæmt heimildarmönnum sé Murrey sakaður um að hafa lagst yfir og kysst – reyndar í gegnum grímu- mun yngri konu sem starfaði við framleiðsluna. Hún hafi tekið þessari háttsemi sem kynferðislegri og hafi þetta vakið með henni viðbjóð. Hún hafi formlega kvartað undan þessari framkomu. Í kjölfarið hafi farið í sáttaferli og Murrey endaði með að greiða konunni 100 þúsund Bandaríkjadali sem nemur um 14,6 milljónum íslenskra króna.
Örlög kvikmyndarinnar eru enn ekki ljós en framleiðsluferlið var um hálfnað þegar þetta mál kom upp. Margir reikna með að hætt verði alfarið við verkefnið frekar en að það verði klárað.