Harry Kane er einn af níu landsliðsfyrirliðum sem ætla að sýna hinsegin samfélaginu stuðning á Heimsmeistaramótinu í Katar síðar á árinu, þvert á reglur þar í landi.
FIFA hefur verið harkalega gagnrýnt fyrir að leyfa Katar að halda mótið. Mannréttindi eru fótum troðin í landinu, til að mynda réttindi hinsegin fólks.
Kane er landsliðsfyrirliði Englands og ætlar hann að taka þátt í því að sýna hinsegin fólki stuðning, með því að klæðast sérstöku fyrirliðabandi.
FIFA hefur ekki gefið grænt ljós á fyrirliðabandið enn.
Yfirvöld í Katar hafa beðið stuðningsmenn og aðra sem ferðast í til landsins í tengslum við HM að virða reglur og hefðir í landinu. Þar á meðal eru reglurnar um að samkynhneigð sé bönnuð.
HM hefst 20. nóvember og lýkur því 18. desember.