Það var stuð og stemning á Keflavíkurflugvelli snemma í morgunsárið. Stór hópur íslensks stuðningsfólks var þar, en full vél af bláklæddum hélt út til Portó í Portúgal til að styðja stelpurnar okkar gegn heimakonum í kvöld.
„Menn eru klárir í góðan sólarhring og að koma stelpunum okkar til Ástralíu,“ segir meðlimur Tólfunnar, stuðningsmannasveitar íslensku landsliðanna.
Með sigri í venjulegum leiktíma eða í framlengingu fer Ísland beint á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi næsta sumar.
„Við ætlum bara að vinna þetta, punktur. Þær gera bara það sem þarf. Ég hef einhverja tilfinningu fyrir 2-1 sigri.
„Þær eru allar einbeittar á að fara grimmar í 90-120 mínútur í mesta lagi. Við erum að fara með með haug af bláu hafi yfir og erum bara að fara á HM í fyrsta skiptið.“
Þó nokkrar Tólfur eru á leið út til Portúgal. Rætt var við nokkrar á Leifsstöð í morgun, líkt og má sjá hér neðar.