fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Sighvatur rifjar upp pólitísk afrek Jóns Baldvins og telur að hann eigi að fá frið fyrir ásökunum um kynferðisbrot

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 11. október 2022 07:55

Bryndís og Jón Baldvin.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þau eru orðin öldruð, hjónin. Eiga sér að baki langan og merkan starfsferil. Hún á sviði menningar og listar. Hann sem foringi íslenskra jafnaðarmanna. Maðurinn, sem gerbreytti íslenska skattkerfinu á nokkrum mánuðum. Úr gömlu og úreltu kerfi söluskatts og eftiráskattgreiðslu tekjuskatta. Í heim virðisaukaskatts og staðgreiðsluskatts . Maðurinn, sem náði í samningum að tryggja landsmönnum mestu efnislegu og réttarfarslegu framfarir, sem orðið hafa í Íslandssögunni. EES-samninginn. Maðurinn, sem veitti þjáðum Eystrasaltsþjóðum mestan og bestan stuðning allra vestrænna þjóðarleiðtoga.“

Svona hefst grein eftir Sighvat Björgvinsson, fyrrum formann Alþýðuflokksins, ráðherra og einn stofnanda Samfylkingarinnar, í Fréttablaðinu í dag. Ber hún fyrirsögnina „Þegar líður að lokum“.

Umfjöllunarefni greinarinnar eru Jón Baldvin Hannibalsson og eiginkona hans, Bryndís Schram, og þær ásakanir sem hafa verið bornar á Jón Baldvin um kynferðisbrot í gegnum tíðina.

„Eftir langan og merkan starfsferil skyldu menn ætla, að ellin fengi að bíða hjónanna í friðsæld og ró. Svo hefur þó ekki reynst vera. Stöðugt harðar hefur verið vegið að friðsæld þeirri og ró. Ásakanir hafa stöðugt og vaxandi verið á þau bornar. Ásakanir, sem beinst hafa gegn honum, en bæði hjónin þurft að axla saman,“ segir Sighvatur og bætir við að mörg þessara meintu brota eigi að hafa átt sér stað fyrir rúmlega hálfri öld. Þetta séu ásakanir sem hafi aldrei verið fylgt eftir með ákærum þannig að dómskerfið gæti fjallað um þær og gert Jóni refsingu fyrir, ef þær hefðu þótt standast.

„Ásakendur hafa þannig tekið að sér bæði ákæruvaldið, dómsvaldið og refsivaldið – sem skal vera að gera þessi öldruðu hjón útlæg úr eigin samfélagi og eigin landi. Nei – afsakið. Ein ákæran hefur verið tekin upp af ákæruvaldinu. Ákæran um, að sá ákærði hefði strokið um bak kvenmanns við matborðið á heimili hins ákærða. Var ákærði sýknaður í héraði. Handhafi ákæruvaldsins, kona, áfrýjaði sýknudómnum til Landsréttar þar sem dóms er að vænta í nóvember,“ segir hann síðan.

Því næst segir hann að hjónin hafi ákveðið að flýja föðurland sitt í þessum erfiðu og sífelldu raunum. „Valið sér að dvelja víðs fjarri heimahögum til þess eins að fá um frjálst höfuð strokið. Vistað sig fjarri hinum illskeyttu ákærendum og löglausum ærusviptingum og útlegðardómum. Aðeins heimsótt ættarland sitt þegar brýna nauðsyn ber til.“

Og bætir síðan við: „Eins og nú. Þegar í aðdraganda er dómur Landsréttar í máli, sem eiginmaðurinn var sýknaður af í undirrétti en ákæruvaldið krafðist áfrýjunar til Landsréttar. Máli, sem hefur nú þegar kostað hjónin miklar þjáningar, margvíslega erfiðleika – og mikla fjármuni. Það er dýrt að verja æru sína á Íslandi Þeirra beið í ættjörðinni meira af slíku. Þess vegna þurftu þau að snúa aftur heim. Sama dag og þau stigu fæti á ættjörð sína birtist í vönduðu blaði, Stundinni, ný atlaga að þeim. Atlaga, sem þagað hafði verið yfir þunnu hljóði þar til fótum þeirra á ættlandið hafði verið stigið. Birtist þá þegar í stað. Atlaga nákvæmlega sams konar og flestar þær fyrri höfðu átt sameiginlegt. Hvergi ákært fyrir refsivert brot heldur kynni, sem hefðu getað valdið slíku ef gert hefði verið. Engar refsiverðar beinar sakir fram bornar heldur vakin athygli á framkomu, sem hefði getað leitt til slíks, ef slíkt hefði gerst. Svona eins og að strok um bakið á gesti við matarborð hefði getað leitt til refsiverðar háttsemi – ef svo hefði orðið.“

Því næst víkur hann að því sem hann segir nýja atlögu og þá frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrum formanni Samfylkingarinnar (sem hann nefnir þó ekki á nafn í greininni). „Þá frá manneskju, sem verið hafði leiðtogi íslenskra jafnaðarmanna – axlað hlutverk, sem hinn aldraði eiginmaður hafði borið með sóma og sæmd. Hvaða manneskja er sá ákærandi? Það er manneskja, sem engan þátt hafði átt í stofnun hinnar nýju, öflugu hreyfingar jafnaðarmanna, Samfylkingarinnar. Haldið sig þar víðs fjarri – framan af. Því engan hlut átt í að reyna að gerbreyta því umhverfi, sem jafnaðarmenn á Íslandi höfðu áratugum saman þurft að sætta sig við. Að ná aldrei sömu forystu meðal íslenskrar þjóðar og jafnaðarmenn náðu í nálægum löndum þar sem fyrir tilverknað þeirra varð til hið norræna samfélag, sem var fyrirmynd annara þjóða um samhygð, samstöðu og jafnan rétt þegnanna.“

Því næst rifjar hann sögu Samfylkingarinnar í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar upp og gerir lítið úr árangri hennar og frammistöðu sem formanns.

Að lokum segir Sighvatur: „Það er aldraður maður, sem skrifar þessi orð. Á sinni löngu starfsævi hafði hann mikil samskipti við þau hjón. Átti í harkalegum átökum við þau . Líka í miklum samskiptum og samvinnu. Hefur deilt með þeim bæði stríðum og stund, jafnt gleðistundum sem erfiðum. Í öllum þeim samskiptum hefi ég aldrei orðið var við eða fengið pata af neinu af því mikla og neikvæða ásökunarefni, sem þeim hjónum er ætlað að bera. Aldrei! Í friði og rósemd elliáranna, sem ég hef fengið að njóta, hefur það miskunnarleysi, sem þeim er sýnt, valið mér áhyggjum. Raskað ró minni. Vakið mig til samúðar. Að þurfa að flýja heimili sitt, ættingja, vini sína og vandamenn, sjálfa ættjörðina – vegna grímulausra, stöðugt ítrekaðra og vandlega undirbúinna árása. Mælist eindregið til þess við þá þjóð, sem við öll tilheyrum, að hún leyfi öldruðu fólki að njóta síðustu hérvistardaga í friðsemd og ró á ættjörðinni sinni, á heimili sínu og með vinum sínum og vandamönnum. Svo fer þeim að ljúka —-þessum skrifum.“

Hægt er að lesa grein Sighvats í heild í Fréttablaðinu í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt