Þetta sagði Forbes McKenzie, sérfræðingur í greiningu leyniþjónustuupplýsinga, í samtali við Sky News. Hann sagði að rússneskar hersveitir verði fljótlega komnar niður á síðustu eldsneytisdropana og geti ekki flutt hersveitir sínar til í Úkraínu.
„Ef við erum að tala um getuna til að færa sig til, það er aka á milli staða, þá held ég að við séum að tala um daga,“ sagði hann.
Úkraínumenn hafa farið illa með birgðalínur Rússa með stórskotaliðsárásum og vel útfærðum árásum með HIMARS-flugskeytum. Í kjölfar árásarinnar á Kerch-brúna eru Rússar í enn meiri vanda með birgðaflutninga sína.
Aðrir sérfræðingar segja að fljótlega muni þeir ekki geta flutt hersveitir sínar til og það mun valda þeim miklum vanda ef úkraínsku hersveitirnar sækja fram.
„Geta þeir verið kyrrir og barist? Það gætu þeir líklega gert í gegnum veturinn en ef Úkraínumenn koma Rússum á hreyfingu, það er að segja stýra gangi mála á vígvellinum, ýta þeim aftur á bak, neyða Rússa til að hreyfa sig og það er engin dísilolía til að hreyfa herinn með, þá er mjög líklegt að þeir skilji ökutækin eftir,“ sagði McKenzie.