Snemma í stríðinu var ljóst að rússnesku hersveitirnar glímdu við lítinn baráttuanda, vanda við að fá nægar birgðir, taktísk mistök herforingja og grjótharða mótspyrnu Úkraínumanna.
Strax í mars komust Rússar ekki neitt áleiðis í sókn sinni að Kyiv og þegar hermennirnir hringdu heim heyrðist vel hversu ósáttir þeir voru og bitrir yfir gangi stríðsins.
Það voru úkraínsk yfirvöld sem hleruðu símtölin og tóku upp. Þau veita ágæta mynd af hversu slæmur andi ríkti meðal rússnesku hermannanna fljótega eftir að innrásin hófst og hversu erfitt lífið er í fremstu víglínu. Reikna má með að staðan í fremstu víglínu hafi ekki batnað síðan í upphafi stríðsins miðað við gang stríðsins þar sem Úkraínumenn eru nú með yfirhöndina. Eiginlega mega rússneskir hermenn ekki hringja heim en margir gera það samt sem áður.
Í símtölunum segja hermennirnir meðal annars frá árásum á Kyiv, miklu mannfalli og ofbeldi gegn óbreyttum borgurum sem yfirmenn fyrirskipuðu. Margir gagnrýna herforingja, bæði fyrir hernaðartaktína og árásir á almenna borgara.
Margir lýsa yfir undrun sinni á mótspyrnu Úkraínumanna og lélegum undirbúningi rússneska hersins. Margir héldu að þeir væru bara að fara að taka þátt í stórri heræfingu.
„Enginn sagði að við værum að fara í stríð. Það fengum við að vita daginn áður.“
„Við fengum að vita að við værum að fara á æfingu í tvo til þrjá daga.“
„Mamma, þetta stríð er bara versta ákvörðunin sem ríkisstjórnin hefur nokkru sinni tekið, held ég.“
„Pútín er fáviti. Hann vill ná Kyiv en því náum við aldrei.“
Ofangreint eru bútar úr nokkrum samtölum hermannanna.
Aðrir kvarta undan lélegum búnaði eða skorti á búnaði, þar á meðal vopnum og nætursjónaukum.
„60% af herdeildinni okkar er fallin,“ sagði einn úr þjóðvarðliðinu við unnustu sína. Hann sagði henni að herdeild hans hafi lent í fyrirsát þar sem 90 hermenn, sem stóðu honum næst í herdeildinni, voru drepnir.
Annar sagði frá fjölda líkkista sem voru teknar fram til að flytja lík um 400 fallhlífarhermanna.
Annar sagði vini sínum í Rússlandi að þriðjungurinn af félögum hans í fallhlífarherdeildinni hafi verið felldur.
Þeir sögðu einnig frá ofbeldi og morðum á óbreyttum borgurum. Einn sagði unnustu sinni að yfirmaður hans hafi gefið fyrirmæli um að skjóta þrjá óbreytta borgara, karlmenn, sem voru á gangi. „Ég er líka orðinn morðingi“ sagði hann. „Við handtókum þá, afklæddum þá og leituðum í fatnaði þeirra. Svo þurftum við að ákveða hvort við tækjum þá með. Ef við hefðum tekið þá með, hefðum við getað komið upp um hvar við vorum,“ sagði hermaðurinn. „Skutuð þið þá?“ spurði unnustan. „Að sjálfsögðu skutum við þá,“ svaraði hann og sagði að það hafi þeir gert til að þurfa ekki að gefa þeim mat. „Við áttum ekki einu sinni nægan mat handa okkur.“