Um klukkan 00:40 í nótt var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kölluð til vegna líkamsárásar en þegar lögreglan mætti á svæðið vildi árásarþoli hvorki fá aðstoð lögreglu né sjúkraliðs. Árásin var talin minniháttar og var málið leyst á vettvangi. Þetta er á meðal þess sem greint er frá í dagbók lögreglu.
Nokkrum mínútum síðar var lögreglunni tilkynnt um aðila á skemmtistað sem var með vandræði við aðra gesti. Dyraverðir reyndu að vísa manninum burt en þeim tókst það ekki, var lögreglan þá fengin til aðstoðar og manninum var í kjölfarið vísað frá staðnum.
Þegar klukkan var að slá fjögur í nótt var tilkynnt um slagsmál í miðbænum milli dyravarða og gesta á skemmtistað. Þá var mikið um minniháttar mál á borði lögreglunnar í nótt, eins og tilkynningar um hávaða- og ölvunarmál.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis í nótt en annar þeirra var einnig grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna. Þá var sá ökumaður ekki með ökuréttindi. Báðir ökumennirnir fóru í gegnum hefðbundið ferli og voru lausir að því loknu.