Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, veltir því fyrir sér hvort hægt sé að ræða stór mál út frá staðreyndum, en hann hefur undanfarna daga sætt nokkuð harðri gagnrýni fyrir ummæli sín um að vilja senda flóttafólk til Rúanda.
Ummælin féllu í tengslum við umræðuna um nýopnaða fjöldahjálparmiðstöð. Sigmundur telur að ákveðið stjórnleysi sé komið upp í málefnum flóttafólks og hafi Ísland ranglega verið auglýst sem áfangastaður fyrir þá sem skipuleggi fólksflutninga.
Sigmundur hefur nú svara’ gagnrýninni í grein sem birtist í dag hjá Vísi. Hann virðist þó eitthvað fara dagavillt þar sem þar sem hann vísar til fréttar Vísis frá því á miðvikudag og segir hana hafa verið skrifaða í gær.
„Eftir viðtal við mig fyrir hádegisfréttir Bylgjunnar í gær var skrifuð frétt á Vísi undir fyrirsögninni „Vill senda flóttafólk til Rúanda”
Næsta skref kom svo í dag með viðtali við Píratann Magnús Davíð Norðdahl. Hann var reyndar bara kynntur sem „lögmaður” eins og um einhvers konar sérfræðing væri að ræða fremur en aktívista.“
Sigmundur vísar þar til fréttar sem birtist hjá Vísi í dag þar sem Magnús Davíð segir hugmyndir Sigmundar ógeðslegar og bera keim af hægriöfgahyggju.
„Þetta er algjörlega fráleit hugmynd, fyrir utan að vera óraunhæf þá er hún ómanneskjuleg. Og bara ógeðsleg hugmynd myndi ég segja og ber keim af hægriöfgahyggju,“ sagði Magnús.
Magnús hafi greinilega ekki hlustað á viðtalið
Sigmundur segir Magnús í engu hafa svarað því sem hann sagði í viðtalinu við fréttastofu Bylgjunnar.
„Magnús svaraði í engu því sem ég hafði sagt í viðtalinu en splæsti nokkrum margnýttum stimplum á það sem hann taldi vera áform mín og skoðanir (hafandi greinilega ekki hlustað á fréttina sem hann var að bregðast við).“
Sigmundur segir margt um þetta að segja. Til dæmis að hann hafi bent á að Íslendingar ættu að læra af stefnu Dana í hælisleitendamálum, og að hann hafi tekið fram að þetta snerist ekki sérstaklega um að senda fólk til Rúanda.
„Dönsk stjórnvöld leggja þó áherslu á að koma upp móttökustöðum utan landsins svo að „Danmörk sé ekki notuð sem söluvara glæpagengja” eins og forsætisráðherra Dana orðaði það.“
Fordómar í umræðunni um Rúanda
Sigmundur segir að bæði döns og bresk stjórnvöld hafi litið til Rúanda fyrir hugsanlega móttökustöð. Stjórnvöldum í Rúanda hafi ekki verið skemmt þegar stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafi byrjað að stilla upp þeirri mynd af landinu að það hlyti að vera mannvonska að ætla einhverjum að dveljast þar.
„Í raun felast í því miklir fordómar. Landið er nú eitt hið öruggasta og þróaðasta í Afríku. Þar er hæsta hlutfall kvenna á þingi í heiminum (61,3%) og plastpokar eru bannaðir í landinu (sem er líklega frumforsenda þess að teljast þróað ríki að mati margra íslenskra þingmanna).“
Markmið Dana sé ekki að senda sem flesta til Rúanda heldur að hafa móttökustöðvar annars staðar en í Danmörku til að fólk selji sig ekki glæpagengjum til að komast til Danmerkur.
„Danir, eins og við, munu áfram bjóða fólki til landsins. Þeir vilja þó ná stjórn á landamærunum og ekki vera söluvara glæpagengja sem hafa aleiguna af fólki og setja það í hættu.“
Stjórnleysi geri Íslandi erfiðara fyrir
Sigmundur tekur fram að sérreglur gildi um flóttamenn frá Úkraínu sem séu „raunverulegir flóttamenn“ í samræmi við skilgreiningu flóttamannasáttmála Sameinuðu Þjóðanna.
„Eins og ég og fleiri bentum á strax eftir upphaf stríðsins gerir stjórnleysi Íslands í málaflokknum okkur erfiðara fyrir að aðstoða það fólk eins og nú hefur komið á daginn.“
Sigmundur segir að nálgast þurfi umræðuna af skynsemi og út frá staðreyndum. Þannig sé hægt að hjálpa flestum þeim sem þurfi mest á hjálp að halda.
„Málefni förufólks verða eitt stærsta viðfangsefni stjórnmálanna um fyrirsjáanlega framtíð. Það þarf því að nálgast það út frá skynsemishyggju og staðreyndum. Aðeins þannig er hægt að hjálpa sem flestum þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda.
Það að reyna að koma í veg fyrir vitræna umræðu með tilraunum til að þagga niður í þeim sem eru ósammála með fáránlegum pólitískum stimplum skilar bara þeirri óstjórn sem nú blasir við.“