Goðsögnin Marcelo var mikið gagnrýnd í vikunni eftir leik Olympiakos og Qarabag í Evrópudeildinni.
Marcelo skrifaði undir hjá gríska félaginu í sumar en hann er goðsögn hjá Real Madrid og lék þar í mörg ár.
Samningur Marcelo við Real rann út í sumar og skrifaði hann undir eins árs samning við Olympiakos.
Brassinn spilaði sinn fyrsta leik fyrir Olympiakos á fimmtudag en hann kom inná sem varamaður á 60. mínútu í stöðunni 0-0.
Eftir innkomu Marcelo skoraði Qarabag þrjú mörk og vann að lokum 3-0 útisigur. Frammistaða bakvarðarins heillaði engan eftir innkomuna.
Marcelo er ásakaður um að vera í mjög slæmu standi en hann var að spila sinn fyrsta leik í fimm mánuði sem er hans afsökun.
Stuðningsmenn Olympiakos klöppuðu mikið er Marcelo kom við sögu í fyrsta sinn en urðu fyrir verulegum vonbrigðum að lokum.