fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fókus

Katie var aðeins tíu ára þegar henni var rænt af níðingi – Hryllingurinn í neðanjarðarbyrginu

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 7. október 2022 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin níu ára Katie Beers bjó ásamt móður sinni, Marilyn, og hálfbróður, John, á Long Island í New York. Hún vissi ekki hver faðir sinn var, og sennilegast vissi móðir hennar það ekki heldur þar sem Katie hafði komið undir við einnar nætur gaman undir áhrifum guð má vita hvers.

Katie Beers.

Marilyn sinnti börnum sínum lítið og illa svo Katie var oft hjá guðmóður sinni, Lindu Inghelleri og manni hennar, Sal. Þau voru Katie lítið betri, hún var vanrækt og barin auk þess sem Sal misnotaði hana kynferðislega. Líf telpunnar var martröð.

Ekki aðeins var henni misþyrmt andlega, líkamlega og kynferðislega heldur var hún líka vannærð, átti vart heila flík og var ávallt grálúsug. 

,,Fjölskylduvinurinn“

John Esposito var fjölskylduvinur Inghelleri hjónanna og oft kom í heimsókn, gjarnan með gjafir handa Katie og John. Síðar kom í ljós að hann hafði misnotað John kynferðislega í þessum heimsóknum. Esposito var á sakaskrá, hann hafði verið handtekinn fimmtán árum fyrir það sem síðar gerðist, og þá fyrir að reyna að ræna tveggja ára dreng. Af einhverjum ástæðum hafði honum þó tekist að losna við fangelsisvist. 

Þann 28. desember 1992, tveimur dögum fyrir tíu ára afmæli Katie, lokkaði Esposito hana að koma með honum heim undir því yfirskini að þar biði hennar afmælisgjöf.

Hann kom henni fyrir í svefnherbergi sínu og sagði henni að spila þar tölvuleiki á meðan að hann sækti gjöfina.

Marilyn, móðir Katie, lét börn sín í hendur ofbeldisfólks.

Hola helvítis

En Esposito kom ekki með gjöf.

Þess í stað greip hann Katie og fór með hana í steypt neðanjarðarbyrgi sem hann hafði smíðað og var staðsett undir garðinum við hús hans.

Byrgið var fjórir fermetrar og að því lágu tveggja metra löng göng. Hurðin að byrginu var 100 kíló af gegnheilli steypu og falin á bak við bókaskáp á skrifstofu Esposito.

John Esposito.

Síðar kom í ljós að hann hafði lengi haft í huga að ræna Katie og byggt byrgið sérstaklega til að fangelsa hana í.

Í byrginu var salerni, rúmdýna og eftirlitsmyndavél svo og lítið veggfast sjónvarp.  Innan af byrginu var enn minna rými, það lítið að það eina sem þar komst fyrir var önnur skítug rúmdýna.

Rýmið var innan við meter á breidd, almyrkvað, og minnti einna helst á líkkistu. 

Lygi á lygi ofan

Esposito hlekkjaði Katie við vegginn í litla rýminu og neyddi hana til að tala inn á upptökutæki og segja að sér hefði verið rænt af ókunnugum manni með hníf. Esposito fór því næst í stóran leiktækjasal, bar sig illa og sagðist hafa týnt sinni litlu vinkonu Katie Beers.

Löregla var kölluð til og Katie leitað innan veggja sem utan án árangurs. Skömmu síðar fór Esposio í símaklefa, hringdi á lögreglu, spilaði upptökuna og skellti svo á. 

Katie eyddi flestum stundum dagsins í litla rýminu. Hafði hún ekkert við að vera annað en reyna fikta í moldarhrúgu við hlið dýnunnar. Esposito færði henni henni stundum skyndibita en oftast kom hann til að færa Katie í stærri klefann þar sem hann misþyrmdi litlu stúlkunni kynferðislega, stundum oft á dag.

Nokkrum dögum eftir ránið kom Esposito með teppi, kodda og leikföng en um leið og hann fór var Katie aftur hlekkjuð í litla rýminu. 

Grunsemdir

Eftir nokkra daga tókst Katie að ná lyklinum að hlekkjunum, losa sig, og komast fram í ,,stærra” rýmið en lengra náði frelsið ekki. Hún faldi lykilinn í koddaveri og gætti þess vandlega að hlekkja sig aftur þegar von var á Esposito. 

Esposito sagði Katie að hún myndi eyða allri sinni ævi í byrginu. Enginn myndi leita hennar þar sem hann hefði tekið mynd af henni sofandi og sent lögreglu sem nú tryði því að hún væri dáin. Það var reyndar helber lygi. 

Inngangurinn að fangelsi Katie.

Lögregla var nefnilega full grunsemda gagnvart Esposito. Ekki aðeins hafði hann reynt að ræna barni fimmtán árum áður heldur hafði John, bróðir Katie, sagt lögreglu frá þeirri misnotkun sem hann hafði orðið fyrir af hendi Esposito. Starfsfólk leiktækjasalarins sór að Esposito hefði aldrei verið þar í fylgd telpu og í ofanálag var lögregla nokkuð viss um að ,,símtal” Katie væri upptaka.

Esposito var nokkrum sinnum kallaður til yfirheyrslu en hélt sig alltaf við sömu söguna. 

Snjöll stúlka

Á meðan að lögregla hamaðist við að leita nægra sannana til að handtaka Esposito fylgdist Katie með leitinni að sér í sjónvarpinu eftir að henni tókst að verða sér úti um lykilinn.

Þótt hún væri aðeins nýorðin tíu ára áttaði hún sig á að um leið og hún hætti að vera í fréttum væri öll von úti.

Og Katie til skelfingar heyrði hún nafn sitt æ sjaldnar í fréttum næstu dagana. 

Sjálf veit Katie ekki hvað varð til þess að hún greip til sömu ráða og nú eru talin vænlegust til bjargar fórnarlömbum mannrána.

Katie Beers.

Sennilegast var það hyggjuvitið því Katie fór að tala og tala við Esposito þegar hann kom niður að misþyrma henni.

Hún grátbað hann meira að segja að dvelja lengur til að spjalla við sig. Katie hóf að segja honum frá vinum sínum, áhugamálum, hvað hún saknaði bróður síns og hvað henni fyndist gaman í skólanum.

Og Esposito fór að hlusta.

Katie sagði mannræningjanum að hennar draumur væri að fara í háskóla, giftast og eignast börn. Klukkustund eftir klukkustund sat Esposito og hlustaði á litlu stúlkuna mála mynd af framtíðinni sem hana dreymdi um. 

Loksins

Hvort tal Katie hreyfði við samvisku Esposita veit enginn. Lögregla var þá farin að hafa eftirlit með heimili hans og líklegt að hann hafi vitað af yfirvofandi handtöku.

En svo mikið er víst að sautján dögum eftir ránið gekk Esposito inn á lögreglustöð, játaði á sig ránið á Katie Beers, og fylgdi lögreglumönnum að byrginu.

Katie bar vitni um kynferðisbrot hans við réttarhöldin, en sem Esposito játaði þó aldrei. Enginn efaðist um kynferðisbrot hans gagnvart stúlkunni en embætti saksóknara tók þann pólinn í hæðina að sækja hann aðeins til saka fyrir mannránið. 

Katie var undir garðinum við hús Esposito.

Má segja að um hreina leti embættisins hafu verið að ræða þar sem Esposito hafði játað á sig mannránið og málið því klárt og kvitt. Ekki var talin nauðsyn á að leita gagna til að sanna á hann fleiri afbrot. 

John Esposito fékk lífstíðardóm fyrir mannrán og lést í fangelsi árið 2013 án þess að þurfa nokkurn tíma að svara til saka fyrir kynferðisbrotin gagnvart Katie. 

Það versta var það besta

Eftir að Katie var bjargað opnaði hún sig loksins um hrylling æsku sinnar og var því komið fyrir í fóstri.

Enn fremur veittu yfirvöld henni nýtt auðkenni til að tryggja telpunni frið frá ágangi forvitinna ,svo og fjölmiðla. 

Katie var heppnari en margir í fósturkerfi Bandaríkjanna því hún lenti hjá ástríkri fjölskyldu, hjónum með fjögur börn, sem tóku henni sem eigin barni frá fyrsta degi. 

Katie Beers.

Það liðu tuttugu ár þar til Katie steig fram og skrifaði bók um sögu sína.

Hún kom í kjölfarið fram í viðtölum og sagði það hafa verið sína mestu gæfu að hafa eignast nýja fjölskyldu sem hefði hjálpað henni að gleyma. Það að auki hefði hún fengið alla þá sérfræðiaðstoð sem í boði var og hefði það verið ómetanlegt.

Katie sagði að þótt fæstur áttuðu sig, væri hún því þakklát að hafa verið rænt því annars hefði kvalræðið af hendi Inghelleri hjónanna og móður hennar haldið áfram. 

Hjá nýju fjölskyldunni hefði hún lært að vera barn, áhyggjulaus í þeirri vissu að vera elskuð og örugg. 

Katie steig úr sviðsljósinu eftir útkomu bókarinnar. Hún er gift, tveggja barna móðir, og starfar hjá tryggingafyrirtæki. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram