Eurovision söngvakeppnin verður haldin í ensku borginni Liverpool, sem hefur einnig verið kölluð höfuðborg popptónlistarinnar. Dagsetningar keppninnar hafa einnig verið opinberaðar en fyrri undanúrslit verða þriðjudaginn 9. og fimmtudaginn 11. maí og sjálf keppnin verður 13. maí.
Sjónvarpsframleiðandinn BBC mun aðstoða Evrópubandalag útvarpsstöðva (EBU) við að skipuleggja keppnina í samráði við ríkissjónvarp Úkraínu, en eins og margir muna sigraði Úkraína keppnina í fyrra en sökum stríðsins getur þjóðin ekki hýst keppnina sjálf og steig þá Bretland, sem hafnaði í öðru sæti í fyrra, fram til að fylla í skarðið.
Liverpool hafði betur gegn fjölda borga sem boðið höfðu fram krafta sína.
Framkvæmdastjóri Eurovision, Martin Österdahl, hefur lýst yfir ánægju með tíðindin.
„Liverpool er hinn fullkomni staður til að hýsa 67. Eurovision-keppnina fyrir hönd Úkraínu.“
Martin segir að Liverpool hafi lengi verið þekkt fyrir tónlist og sé tónleikastaðurinn Liverpool Arena, þar sem keppnin verður haldin, fyrirtaks staður sem uppfylli allar kröfur og gott betur.
„Við erum mjög hrifin af því hvernig borgin hefur að ástríðu tekið keppninni opnum örmun sem og af hugmyndum þeirra um hvernig þau ætla að hafa sigurvegara síðasta árs, Úkraínu, í hávegum fyrir framan þúsundir aðdáenda sem sækja borgina heim í maí.“
Martin bendir á að þetta sé í fyrsta sinn í 25 ár sem Bretland hýsir keppnina og lofar að viðburðurinn verði einstakur.
Forstjóri BBC, Tim Davie óskar Liverpool til hamingju.
„Liverpool er svo spennandi, hlý og lifandi borg. Þetta óumdeild höfuðborg popptónlistar“
Hann segist vita að íbúar Liverpool muni taka Evrópu opnum örmum, sem og gestum frá öðrum heimsálfum.