Stórlið Barcelona er í miklum vandræðum í vörninni þessa dagana en margir leikmenn eru á meiðslalistanum.
Andreas Christensen meiddist nýlega og verður frá í einhvern tíma en með honum á listanum eru þeir Jules Kounde, Ronald Araujo og Hector Bellerin.
Samkvæmt fregnum frá Spáni þá ætlar Xavi, stjóri Barcelona, að gefa ungum leikmanni tækifæri í næsta leik gegn Celta Vigo.
Um er að ræða hinn 19 ára gamla Chadi Riad sem hefur hingað til ekki leikið aðalliðsleik fyrir Börsunga.
Riad hefur staðið sig vel með unglingaliði Barcelona og hefur spilað sex leiki á tímabilinu til þessa og skorað eitt mark.
Riad æfði með aðalliði Barcelona á undirbúningstímabilinu og skrifaði einnig undir samning til ársins 2024.