Eins og fram kom í vikunni stígur Eiður Smári Guðjohnsen tímabundið til hliðar sem þjálfari FH í Bestu deild karla. Hann var tekinn ölvaður undir stýri á þriðjudag.
Eiður hefur sagt að hann ætli að taka sér tíma í að vinna að sínum málum.
Málið var til umræðu í Íþróttavikunni með Benna Bó á Hringbraut.
„Auðvitað óskar maður honum alls hins besta. Hann ætlar að reyna að tækla þessi mál. Ég held að hver einasti Íslendingur sem er með hjartslátt voni að Eiður Smári komi tvíefldur til baka. Manni finnst hann vera með öll spil á hendi til að eiga frábæran feril í þessu þjálfarastarfi,“ segir Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs.
„Ég held að hann sé nokkuð meðvitaður um það að það sé kominn tími til að taka á honum stóra sínum, vinna þessa orustu. Þá mæta menn sterkari til leiks.“