„Hvers vegna er notkun greiðslukorta og greiðslumiðlunar hér á landi margfalt dýrari hér en í nágrannaríkjunum?“ spyr Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Hún svarar spurningunni einnig, í grein í Fréttablaðinu í dag: „Það er vegna þess að við erum háð erlendum aðilum. Heimildargjöf og uppgjör innlendra debetkorta fer fram erlendis. Íslenskir neytendur eru ekki bara að greiða til íslenskra banka heldur borga þeir einnig til Visa og Mastercard í útlöndum.“
Ógn við þjóðaröryggi
Oddný er allt annað en sátt við þetta fyrirkomulag: „Hagnaður bankanna af þessu fyrirkomulagi hleypur á milljörðum en er okkur neytendum mjög kostnaðarsamt því allir milliliðir vilja sitt á öllum stöðum. Við borgum og getum ekki annað. Við bætist að þetta fyrirkomulag getur ógnað þjóðaröryggi líkt og Már Guðmundsson, þá seðlabankastjóri, benti á árið 2019 með bréfi til Þjóðaröryggisráðs,“ segir Oddný.
Hún bendir á að fjármálastöðugleikanefnd áréttaði í yfirlýsingu sinni 28. september síðastliðinn mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun til að tryggja rekstrarsamfellu og vísaði þar meðal annars til vaxandi netógnar.
Þurfa að girða sig í brók
„Við þurfum sjálfstæðar og óháðar greiðslulausnir. Lausnir sem eru bæði ódýrari en þær sem við búum við og öruggari. Krafan ætti að vera sú að ávallt séu til staðar virkar lausnir sem lúta í einu og öllu íslenskri löggjöf um eignarhald, umráða- og notkunarrétt og eru algjörlega óháðar inngripum erlendra aðila sem gætu ógnað innlendri greiðslumiðlun og fjármálastöðugleika. Það þarf að auka samfélagslegan ábata og tryggja þjóðaröryggi,“ segir hún.
Þá bendir hún á að þingmenn Samfylkingar hafi ekki viljað selja hlut ríkisins í bönkunum fyrr en framtíðarsýn hefði verið rædd meðal almennings um hvernig bankakerfi þjónaði hagsmunum hans best. „En ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir vildu selja sem mest strax og hirtu ekki um að gera þyrfti breytingar á kerfinu til að tryggja hagsmuni almennings. Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands þurfa að girða sig í brók og tryggja óháða sjálfstæða fjármálainnviði, óháðar og ódýrar innlendar greiðslulausnir,“ segir Oddný.
Greinina í heild sinni má lesa hér.