Hann fór um víðan völl í viðtalinu og ræddi meðal annars um fyrrverandi eiginkonu sína, raunveruleikastjörnuna Kim Kardashian, „White Lives Matter“ skandalinn og söngkonuna Lizzo.
Sjá einnig: Kanye West fer í hart við Khloé Kardashian og birtir skjáskot – „ÞÚ ERT AÐ LJÚGA“
Undanfarna viku hefur Kanye verið í hálfgerðu „stríði“ á Instagram við Gabriellu Karefu-Johnson, ritstjóra hjá Vogue. Þetta byrjaði allt á því að Kanye klæddist bol með áletruninni „White Lives Matter“ á sýningu Yeezy á tískuvikunni í París. Gabriella gagnrýndi hann harðlega og sagði að þetta væri „ótrúlega óábyrgt og hættulegt.“
Kanye svaraði með því að birta myndir af henni á Instagram og gagnrýna fatastíl hennar. Fjölmargar stjörnur komu henni til varnar, meðal annars fyrirsætan Gigi Hadid, sem kallaði hann eineltissegg.
Eins og fyrr segir fór Kanye um víðan völl í viðtalinu. Þetta er það helsta:
„Fjölmiðlar gerðu mig að athlægi fyrir að kaupa hús við hliðina á Kim til að sjá börnin mín, þeir sögðu meira að segja að ég væri eltihrellir og væri að fylgjast með henni og nýja kærastanum hennar [Pete Davidson], því ég keypti húsið við hliðina til að sjá börnin mín,“ sagði hann.
„Það er svo margt sem þau láta Kim trúa. Þau koma með áhrifavalda, ég meina enginn veit hvaðan Corey Gamble [kærasti Kris Jenner] kom, enginn í tískuheiminum veit hvaðan [Gabriella Karefa-Johnson] kom. Að mínu mati var þetta fólk beinlínis búið til í rannsóknarstofu. Og eitt af því sem þau eru góð að gera er að vera vingjarnleg og viðkunnaleg,“ sagði hann.
„Kim er kristin, en hún er með fólk í kringum sig sem vill að hún fari í viðtal hjá tímaritinu Interview og sýni á sér rassinn, á meðan hún er fjörutíu og eitthvað ára milljarðamæringur með fjögur svört börn – og svona vill tískubransinn sýna hana.“
„Ég geri ákveðna hluti út frá tillfinningu. Ég nota orkuna. Mér finnst það bara rétt, þetta er innsæi, tenging mín við Guð og bara snilligáfa,“ sagði hann og líkti sér síðan við skautadrottninguna Tonyu Harding. Hann útskýrir þetta nánar í spilaranum hér að neðan.
Kanye gagnrýndi SKIMS, fatafyrirtæki Kim, og sagði það vera „of kynferðislegt.“
„Mér finnst margt athugunarvert við ímynd SKIMS. Mér finnst eins og myndaframsetningin í kringum SKIMS, ásamt öðrum hlutum, vera of kynferðisleg og ég vil ekki sjá eiginkonu mína, og klárlega ekki dætur mínar, taka þátt í slíku í framtíðinni til að selja vörur,“ sagði hann.
„Ég sagði aldrei fólki að mér líkaði vel við Trump þegar hann var í framboði því ég var lagður í einelti af Hollywood,“ sagði hann.
„Því ég var í Hollywood, fólk var að segja mér að hugsa um börnin mín. Ég var að reyna að halda hjónabandinu gangandi. Þannig ég var að halda aftur af mér. Það eru svo margir feður og mæður sem fara í vinnuna á hverjum degi, sem halda aftur af sér, því þau halda að það sé betra fyrir börnin sín.“