Kjarninn greindi frá því í dag að Agnieszka Ewa Ziólkowska og Ólöf Helga Adolfsdóttir, fyrrverandi formaður og varaformaður Eflingar, hefðu á forystutíma sínum fengið aðgang að tölvupóstum til Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Viðars Þorsteinssonar, sem skömmu áður höfðu sagt upp sem formaður og framkvæmdastjóri félagsins. Sólveig Anna gerir þetta að umræðuefni í harðorðum pistli í dag þar sem hún svarar jafnframt harkalegum pistli sem nokkrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni birtu á Vísir.is í dag. þar sem varað er við uppgangi Sólveigar Önnu og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, innan ASÍ, og hvatt til mótframboðs gegn væntanlegu framboði Ragnars til embættis forseta ASÍ.
Sem fyrr segir þá skefur Sólveig Anna ekkert utan að því er hún ræðir frétt Kjarnans um tölvupóstmisferlið og ádeilugreinina sem birtist á Vísi í dag. Hún segir meðal annars:
„Í gær sagði ég frá því á fundi miðstjórnar ASÍ að Agnieszka Ewa Ziolkowska og Ólöf Helga Adolfsdóttir hefðu þann 12. janúar látið tengja tölvupósthólf það sem ég hafði notað í störfum mínum sem formaður Eflingar allt frá því að ég tók fyrst við því embætti seint í apríl 2018 þangað til ég sagði af mér haustið 2021 við tölvupósthólf Agnieszku Ewu, starfandi formanns félagsins. Allur tölvupóstur minn var opinn til vinnslu fyrir starfandi formann frá 12. jánúar síðastliðnum þangað til 13. apríl, eða þangað til að fimm dagar voru liðnir frá því að ég tók aftur við embætti formanns félagsins, og alls í tæpa tvo mánuði frá því að ég var kjörinn formaður Eflingar 15. febrúar 2022. Engar hömlur voru á aðgengi hennar. Mér var ekki tilkynnt um þessa ógeðslegu aðgerð, og enginn rökstuðningur var settur fram af henni eða Ólöfu Helgu um hversvegna þær þyrftu að „fara í tölvupóstana“ eins og þáverandi varaformaður félagsins, Ólöf Helga Adolfsdóttir, orðaði það svo smekklega. Agnieszka og Ólöf lásu sig í gegnum tölvupóstsamskipti mín, Agnieszka Ewa prentaði út pósta og eflaust var eitthvað fleira brallað með póstana. Ég get ímyndað mér að mikill les-losti hafi t.d. gripið þær þegar að ég og félagar mínir á Baráttulistanum höfðum tilkynnt framboð 28. janúar; þær hafa eflaust gert siðlausa tilraun til að reyna að finna eitthvað bitastætt gegn mér til að tryggja Ólöfu Helgu formannssætið sem hún þráði svo mjög að verma.“
Sólveig lýsir andstæðingum sínum sem fólki sem ekki kann að skammast sín og sé blindað af valdasýki. Hins vegar skorti þetta fólk hugrekki til að bjóða sig sjálft fram á sama tíma og það leiti frambjóðenda gegn henni og Ragnari Þór:
„Smámenni verkalýðshreyfingarinnar þora ekki einu sinni sjálf að bjóða sig fram. Þau bíða bara eftir því að fram stígi einhver sem að þau geta hugsað sér að kjósa. Þetta væri hlægilegt ef að þetta væri ekki svona aumkunarvert.
Ég vona að þau finni kjarkinn. Ég vona að Finnbogi eða Þórarinn eða framapotarinn og persónuverndar-glæponinn Ólöf Helga gefi kost á sér til að leiða ASÍ, og þingfulltrúar fái að velja á milli þess gamla og hins nýja. Fái að velja á milli baráttuþreks og einbeittrar löngunar til að ná árangri fyrir vinnandi fólk, og aumingjaskapar og siðleysis. Ég trúi nefnilega á leikreglur lýðræðisins. Og það er alltaf gaman þegar að við fáum að kjósa að valkostirnir séu eins skýrir og hægt er að hugsa sér.“
Grein Sólveigar Önnu má lesa með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.