Vanafastir aðdáendur Quality Street-molanna eiga það til að láta í sér heyra þegar breytingar verða á þeim. Eins og fram kemur á vef Fréttablaðsins þá hefur Quality Street kynnt til sögunnar nýjar umbúðir utan um sælgætið en markmiðið er að gera þær eins umhverfisvænar og hægt er.
Hingað til hafa umbúðirnar verið úr skrjáfandi plasti sem skapar þannig eftirvæntingu að munnvatnskirtlarnir fara í yfirvinnu. En nú verður plastinu skipt út fyrir umhverfisvænan og endurnýtanlegan pappír sem hljómar vel í eyrum þeirra sem vilja umhverfinu allt það besta.
Engar breytingar verða gerðar á tveimur molum sem þegar eru í endurvinnanlegum umbúðum. Þetta eru Green Triangle og Orange Chocolate Crunch.
Í frétt Mail Online kemur fram að ekki séu allir á eitt sáttir við þessa breytingu þó hún skipti væntanlega fæsta mjög miklu máli. Vísað er í umræður á Twitter þar sem einn segir til að mynda:
„Því miður, þá líta molarnir núna út fyrir að vera ódýrir og eru niðurdrepandi. Umbúðirnar skipta máli þegar matur er annars vegar en neistinn er farinn af Quality Street.“