Það var staðfest í gær, með tapi Val gegn Víkingi Reykjavík, að KA yrði á meðal íslenskra liða í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Í tilefni að þessu hefur Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri félagsins, ritað pistil.
Sævar segir frá því hvernig KA breytti stefnu sinni í kjölfar þess að hafa hafnað í áttunda sæti B-deildarinnar árið 2014. Þá hafi verið ákveðið að byggja liðið upp, skref fyrir skref.
KA komst upp í efstu deild haustið 2016. Þá var ákveðið að festa liðið á meðal fremstu átta á landinu, sem hefur tekist.
KA er sem stendur í þriðja sæti Bestu deildar karla með 46 stig og er, sem fyrr segir, búið að tryggja sér sæti í undankeppni Sambandsdeildarinnar næsta sumar.
Sævar fer yfir uppgang liðsins í pistlinum hér neðar. Hann birti hann á Facebook-síðu sinni.
Pistill Sævars
Árangur er ekkert annað er þrotlaus vinna, (smá langloka frá mér).
Frá því haustið 2014 þá hefur ákveðin vinna verið í gangi hjá okkur í KA með fótboltann, það ár enduðum við í 8 sæti næst efstu deildar og ákváðum við að hugsa hlutina upp á nýtt.
Við vildum hugsa rekstur knattspyrnudeildarinnar meira eins og alvöru fyrirtæki, þar sem við værum með skýra stefnu, markmið og ákveðna milestone sem við vildum ná á leiðinni að þeim markmiðum sem við vildum setja okkur. Við byrjuðum á að setjast niður og endurhugsa starfið til tveggja ár, þ.e.a.s 2015 og 2016, þar voru 2 lykilmarkmið hjá okkur. Annars vegar að koma okkur í deild þeirra bestu og hins vegar að ná utan um reksturinn þannig að við vissum hvað við ættum og hvað við vorum að gera í hverjum mánuði, við höfðum verið eins og kannski mörg önnur íþróttafélög þar sem við fórum af stað með væntingar á vorin og svo var reynt að hreinsa upp hlutina á haustin. Ég fékk það hlutverk eða kannski sóttist eftir því segja sumir að verða leiðinlegi kallinn út á við sem fór strax að tala um #Pepsi16 sem varð svo að endurnýta í #Pepsi17 en þetta var allt með ráðum gert. Við vildum senda skýr skilaboð, fá fólkið okkar til að trúa á markmiðin og að sjálfsögðu sýna leikmönnum að þetta væri trúin okkar út á við ekki bara eitthvað sem við værum að segja við þá til að semja en höfðum svo út á við ekki trú á markmiðinu.
Haustið 2016 erum við búin að ná þessum tveimur aðalmarkmiðum, reksturinn orðinn eins og við vildum hafa hann og liðið vann Inkasso-deildina og tryggði sér setu á meðal þeirra bestu. Hvað nú? Hvert á að stefna og hver eru markmiðin? Við tókum stóran stefnumótafund þar sem til verksins voru boðaðir leikmenn, þjálfarar, stuðningsmenn og styrktaraðilar, hvert átti KA að stefna og hver voru markmiðin? Þriggja ára plan þar sem helstu markmiðin voru tryggja KA sem topp 8 klúbb, koma á samstarfi erlendis þar sem við gætum farið með unga krakka til æfinga, KA yrði það félag á norður/austurlandi sem ætti að verða eftirsóknavert að koma til byggir þú í nágrannasveitarfélögum og efla afreksstarf, fjölga leikmönnum í yngri landsliðum. Þetta gékk allt eftir, við höfum alltaf verið á topp 8 síðan við fórum upp, átt gott samstarf við FCM og fleiri klúbba í skandinavíu, landsliðskrökkum fjölgað og ákveðin mynd farin að skýrast með afreksstarfið okkar.
2019 var komið að næsta stefnumótarfundi aftur með fjölda fólks. Markmiðin skýr fyrir 2020-2022, koma KA aðeins hærra fara að berjast í topp 4 (Evrópa), selja leikmenn úr aðalliðinu, og helst einhverja u19 leikmenn og ef allt gengur eftir verður hugsanlega einhver stærri verðlaun sem detta í leiðinni. Nú í gær var kannski stærsta markmiðinu náð sem var að komast í Evrópu, höfum sannarlega selt leikmenn úr aðalliðinu þessi síðustu ár, en kannski eina sem hefur vantað upp á í þessari vegferð okkar er að selja leikamann u19, en vissulega er að það að nálgast og kemur vonandi á næstu árum.
Nú fer að styttast í sambærilega vinnu fyrir næstu 3 ár og verður gaman að sjá hvernig sú vinna kemur út.
Þannig að árangurinn sem er að detta í hús núna er búið að vera langhlaup ekki spretthlaup og því á maður enn auðveldara með að gleðjast á degi sem þessum. Okkar helsta lukka er að nánast sami kjarni hefur verið í stjórnum og ráðum allan þennan tíma, menn hafa verði með markmiðin fyrir framan sig og unnið að því. Það er ekki sjálfgefið að sjálfboðaliðar fórni sér fyrir félagið sitt eins og stjórnarmenn hafa gert núna í um átta ár. Þið eigið öll skilið ótrúlegt þakklæti, Eiríkur, Ingvar, Hjörvar, Gulli, Skúli, Emmi, Robbi, Tóti, Kata, Jói, Guðni og þið öll hin, ótrúlega vinna sem þið hafið lagt í þetta. Þakklæti til Tufa, Óla, Adda sem eiga mikinn þátt í okkar starfi og að sjálsögðu Haddi líka ásamt leikmönnum sem hafa verið að taka þennan dans með okkur í mörg ár. Grímsi, Hrannar, Elli, Andri, Ívar, Danni, Bjarni, Svenni og fjöldinn allur af þeim sem hafa lagt sitt á lóðarskálarnar. Að lokum þakklæti til þeirra styrktaraðila sem hafa verið með okkur allan tíman, ómetanlegt að hafa stuðning ykkar.
Framundan eru enn bjartari tímar þar sem félagið er langt frá því hætt. Uppbygging á svæðinu komin á fullt og Evrópuleikir handan við hornið. Er ótrúlega stoltur af því hvernig félagið hefur unnið þetta verkefni skref fyrir skref til að ná árangri sem vonandi er byggður þannig að árangurinn er hugsaður til lengri tíma en ekki skemmri tíma.