Það er rúmlega eitt og hálft ár síðan Kim Kardashian sótti um skilnað frá Kanye West. Fyrrverandi hjónin höfðu verið gift í tæp sjö ár og eiga saman fjögur börn; North, Saint, Chicago og Psalm.
Síðastliðið eitt og hálft ár hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Það hefur verið mikið um drama og hefur rapparinn reglulega dregið það fram í sviðsljósið með því að vera með opinberar yfirlýsingar á Instagram um fyrrverandi eiginkonu sína. Um tíma tók hann pásu – tilneyddur eftir að hafa verið settur í bann – en því tímabili er lokið og hefur hann verið mjög virkur á miðlinum undanfarna daga.
Ekki nóg með að vera í hálfgerðu stríði við ritstjóra hjá Vogue, Gabriellu Karefa-Johnson, eftir að hún gagnrýndi bol hans með áletruninni „White Lives Matter“, þá réðst hann einnig gegn Kim og fyrrverandi tengdafjölskyldu sinni á Instagram í gær.
View this post on Instagram
Fyrirsætan Gigi Hadid og fleiri stjörnur komu Gabrielle til varnar vegna bolamálsins. Rapparinn spurði þá hvar þær hefðu verið þegar honum var meinaður aðgangur að afmæli dóttur sinnar í janúar.
View this post on Instagram
Á þeim tíma tjáði hann sig um málið í beinni á Instagram og sagðist ekki hafa fengið að koma í afmælið en mætti eftir að Travis Scott, kærasti Kylie Jenner, sagði honum heimilisfangið. Heimildarmenn nátengdir Kardashian fjölskyldunni sögðu Kanye ljúga.
Sjá einnig: Skilnaðardrama heldur áfram að skekja Kardashian fjölskylduna – „Ég fæ ekki að vita hvar afmælið hennar er“
„Kim var í áfalli að hann hefði ásakað hana í beinni (e. live) þegar þetta var hans hugmynd til að byrja með að vera með tvær veislur. Hún ætlaði að vera með sína veislu snemma um daginn og hann ætlaði að halda aðra veislu. Það var enginn að reyna að koma í veg fyrir að hann myndi mæta.“
Heimildarmaðurinn virðist hafa farið með rétt mál ef marka má orð Khloé Kardashian, en hún skrifaði við færslu Kanye í gær og sagði hann fara með rangt mál.
„Ye, ég elska þig. Ég vil ekki gera þetta á samfélagsmiðlum en þú byrjaðir […] Aftur með þetta afmæli. Þetta er komið gott. Við vitum öll sannleikann og erum orðin þreytt á þessu. Þú veist alltaf hvar börnin þín eru og ÞÚ vildir tvær veislur. Ég hef séð öll skilaboðin sem sanna það. Og þegar þú skiptir um skoðun og vildir mæta, þá mættir þú,“ sagði hún.
„Eins og þú hefur sjálfur talað um, þá er það hún sem hugsar um börnin ykkar um 80 prósent af tímanum. Vinsamlegast hættu að ráðast á hana og fjölskyldu hennar á samfélagsmiðlum, svo það sé hægt að ala upp börnin friðsamlega.“
Khloé endaði með að hún væri að segja þetta með ást og virðingu og væri til í að halda áfram með samtalið í einrúmi.
View this post on Instagram
Kanye virðist hafa afþakkað boð hennar um að halda áfram að tala saman án þess að allur heimurinn myndi fylgjast með.
Hann birti skjáskot af athugasemd hennar og kallaði hana lygara.
„ÞÚ ERT AÐ LJÚGA OG ÞIÐ ERUÐ LYGARAR,“ skrifaði hann. Öll færslan er skrifuð í hástöfum.
Hann sakar Kim og fjölskyldu hennar um að hafa „rænt“ dóttur þeirra á afmælisdaginn hennar. „Svo hún gæti munað að pabbi hennar væri ekki til staðar,“ segir hann.
Khloé hefur ekki tjáð sig frekar um málið.