Því var haldið fram í Stúkunni á Stöð2 Sport í gær að Valur muni láta Birki Má Sævarsson fara frítt frá félaginu í sumar.
Birkir Már er í hópi þeirra sem eru að verða samningslausir en þar eru líka Birkir Heimisson, Sebastian Hedlund og Arnór Smárason.
Sigurður Egill Lárusson framlengdi við Val á dögunum eftir mikinn áhuga frá öðrum liðum. Samkvæmt Stúkunni fá ekki fleiri leikmenn nýjan samning.
„Það eru sögusagnir um það að aðrir leikmenn sem eru að renna út á samning hjá Val að það verði ekki endursamið við þá. Það eru skilaboð frá nýjum þjálfara að hann sjái ekki að hann þurfi á þeim að halda,“ sagði Gummi Ben í Stúkunni og á þar við Arnar Grétarsson.
Orri Sigurður Ómarsson hefur verið meiddur allt tímabilið og verður samningslaus, þar eru líka Rasmus Christiansen, Lasse Petry og fleiri.
„Þetta eru margir leikmenn. Þetta er Birkir Már,“ sagði Gummi Ben meðal annars en Fótbolti.net sagði fyrst frá.
Birkir Már er 37 ára gamall en hann er einn dáðasti sonur Vals, hann kom til félagsins úr atvinnumennsku árið 2018 og hefur verið einn besti leikmaður liðsins síðan þá.