Mál Gráa hersins, baráttuhópi eldra fólks um lífeyrismál, gegn Tryggingstofnun og íslenska ríkinu vegna skerðinga ellilífeyris var tekið fyrir í Hæstarétti í morgun. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var viðstaddur málflutninginn en hann segir málið „stórpólitískt og mikilvægt.“
Málflutningur stóð yfir í hálfan þriðja tíma en reikna má með niðurstöðu dómara í desember.
Hæstiréttur gaf í vor leyfi til að áfrýja málinu beint til Hæstaréttar án aðkomu Landsréttar en þetta er í þriðja sinn sem slíkt leyfi er veitt. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði íslenska ríkið og Tryggingastofnun á síðasta ári.
Mál þremenninganna í Gráa hernum, þeirra Ingibjargar H. Sverrisdóttur, Sigríðar J. Guðmundsdóttur og Wilhelm Wessman, snýst um eignarréttarákvæði laga og skerðingar ríkisins á greiðslum frá Tryggingastofnun á móti tekjum úr lífeyrissjóðum í almenna lífeyrissjóðakerfinu. Mál þeirra eru ólík Grái herinn telur þau gefa heildstæða mynd af göllum almannatryggingakerfisins.
Jóhannes Páll fjallar um málið á Facebooksíðu sinni þar sem hann spyr ýmissa spurninga:
„Nýtur rétturinn til ellilífeyris almannatrygginga verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrár?
Átti ekki skyldulífeyrissparnaður launafólks alltaf að koma til viðbótar frekar en til frádráttar þeim réttindum sem fólk nýtur samkvæmt lögum um almannatryggingar?
Hafði vinnandi fólk réttmætar væntingar til þess að fá notið þeirra réttinda sem það aflaði sér með framlögum í lífeyrissjóði án þess að réttindin kæmu til frádráttar greiðslum almannatrygginga?
Hefðu kjarasamningar náðst árið 1969 ef verkalýðshreyfingin hefði vitað að þegar greiðslur úr lífeyrissjóðum færu loks að berast áratugum síðar yrðu þær dregnar svo rækilega frá greiðslum almannatrygginga að ríkið sjálft yrði, með óbeinum hætti, í raun stóri lífeyrisþegi lífeyrissjóðanna?
Er réttmætt og málefnalegt að meðhöndla tekjur fólks með gerólíkum hætti í almannatryggingakerfinu eftir því hvort fólk hafi heilsu og þrek til að vinna eða ekki?
Um þetta og miklu fleira var tekist á í Hæstarétti í aðalmeðferðinni í máli Gráa hersins gegn íslenska ríkinu.“