Ekki voru allir lukkulegir með tíðindin frá Seðlabankanum í morgun er tilkynnt var um 0,25 prósenta stýrivaxtahækkun. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði að þessi hækkun væri vísbending um að Peningastefnunefnd væri ánægð með árangurinn sem náðst hefur með miklum hækkunum stýrivaxta undanfarið. Mögulega sé búið að ná toppi stýrivaxtahækkana.
Furðuðu sig einhverjir á því að enn hafi þurft að hækka vextina þar sem ársverðbólga hefur undanfarið lækkað úr 9,9 prósentum niður í 9,3 prósent. Eins hafi verð á íbúðamarkaði jafnvel verið að lækka.
Ásgeir varpaði jafnframt „boltanum“ eins og hann orðaði það til vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar – Seðlabankinn hafi náð árangri gegn verðbólgunni en nú þurfi að sjá hvað aðrir lykilleikendur í efnahagslífinu ætli að gera. „Ætlar vinnumarkaðurinn, ríkisstjórnin og atvinnulífið að taka við boltanum af okkur?,“ spurði Ásgeir sem benti á að lítið þurfi til að verðbólgan fari aftur af stað og þá muni Seðlabankinn ekki hika við að hækka vexti enn frekar.
Athygli vakti að þegar Ásgeir Jónsson minntist á kröftug viðbrögð í einkaneyslu á fyrri helmingi ársins hafi vel sést á tásumyndum sem fólk birti af sér á sólarströndum. Ljóst sé að fólk sem hafi setið heima í COVID og sparað peninga sé farið að eyða peningunum.
„Það voru allir að taka myndir af tánum á sér á Tene eða eitthvað álíka í sólbaði,“ sagði Ásgeir á léttu nótunum á fundi í Seðlabankanum í morgun.
Segja má að þessi orðanotkun hans hafi vakið furðu, jafnvel kátínu.
Virkilega áhugaverðar rannsóknaraðferðir sem beitt er hjá Seðlabankanum. pic.twitter.com/rS7CNuyYi7
— Haukur Bragason (@HaukurBragason) October 5, 2022
Jæja, núna þarf að kæla Seðlabankann aðeins. pic.twitter.com/9VtZJMXUVr
— Hrafn Jónsson (@hrafnjonsson) October 5, 2022
Tíðar tásumyndir eru í mínum huga ein neikvæðasta afleiðing hinnar kröftugu einkaneyslu.
Barnatásur eru mjög sætar, en fullorðinstær sem hafa gengið heimsins grjót… afsakið mig en, nei takk.😬
Það þarf að fara að ræða þessar óumbeðnu tásumyndir. pic.twitter.com/D9WTE965DT
— Andrea Sigurðardóttir (@andreasig) October 5, 2022
Aðrir bentu á að staðan hafi nú ekki verið þannig hjá öllum í COVID að hægt væri að spara fyrir tásumyndatöku á Tenerife.
Þau sem áttu gátu þá tekið hærri lán á íbúðirnar sínar, keypt nýja (niðurgreidda) bíla og eytt sparnaðinum í ferðir til Tene eða aðra einkaneyslu. Á meðan berjast hin í bökkum við að kaupa fyrstu íbúð eða halda í við leiguhækkanir. 2/4
— 🌻Heiða🌻 (@ragnheidur_kr) October 5, 2022
Síðasta vígið fallið. Við erum fökkt. Seðlabankastjóri farinn að taka hagstjórnarlegar ákvarðanir útfrá algoritma instagrams. pic.twitter.com/Z9RvKtwXHV
— Freyr Árnason (@Freyr_Arnason) October 5, 2022
Það er einmitt fyrsti áfangi hagfræðinnar við Hogwartz skóla galdra og seiða að læra að rýna í tásumyndir. https://t.co/HhF7O8Pyo3
— William Thomas Möller (@WilliamWthm) October 5, 2022
Eins vöktu ummæli Ásgeirs um að aðrir þurfi nú að grípa boltan athygli og umtal.
— Ragnar Eyþórsson (@raggiey) October 5, 2022