Dagur Dan Þórhallsson hefur farið á kostum með Breiðabliki í Bestu deild karla á þessari leiktíð.
Þessi fjölhæfi leikmaður kom til Blika í vetur, en hann var á mála hjá Fylki er liðið féll úr efstu deild í fyrra.
Það bjuggust fáir við slíkri velgengni hjá Degi. Gengu margir hart fram í gagnrýni sinni á honum og Breiðabliki fyrir að fá hann til liðs við sig.
Valtýr Björn Valtýsson ræddi Dag í hlaðvarpsþætti sínum, Mín Skoðun, í dag. Hann skaut á gagnrýnendur leikmannsins unga.
„Þeir menn, í alvöru talað, ættu aðeins að hugsa sig aðeins um í framtíðinni, hvernig þeir eru að tala um félagaskipti þessa leikmanns eða einhvers annars, að gefa því séns og ekki rúlla yfir viðkomandi leikmann og félag,“ segir Valtýr.
„Það voru sumir hverjir sem stigu ansi djarft fram og rúlluðu yfir drenginn og Breiðablik.“