Knattspyrnudeild Fjölnis hefur gengið frá samningum við þá Óliver Dag Thorlacius og Sigurvin Reynisson til tveggja ára, út tímabilið 2024. Báðir koma þeir til félagsins frá Gróttu.
Óliver er 23 ára miðjumaður sem spilað hefur með Gróttu frá tímabilinu 2018 en þar áður var hann á mála hjá KR þar sem hann er uppalinn. Óliver á að baki 136 KSÍ leiki og hefur skorað í þeim 27 mörk. Auk þess á hann átta leiki með yngri landsliðum Íslands.
Sigurvin sem er 27 ára varnarsinnaður miðjumaður er uppalinn hjá Fylki en hefur leikið með Gróttu síðan 2016. Á síðasta tímabili var Sigurvin frá vegna anna en mun snúa aftur á völlinn með Fjölni á komandi tímabili. Hann á að baki 177 leiki í meistaraflokki, þar af 16 í efstu deild.
„Það er mikið fagnaðarefni fyrir félagið að semja við þessa öflugu leikmenn sem eru frábær viðbót við hópinn. Knattspyrnudeild Fjölnis hlakkar til komandi tímabila saman og væntir mikils af samstarfinu,“ segir í tilkynningu Fjölnis en liðið leikur aftur í Lengjudeildinni á næsta ári.