Í samtali við DV segir Ásdís Rán að þættirnir hafi verið teknir upp í vor í Búlgaríu og verða þeir frumsýndir í Þýskalandi í október, því næst á heimsvísu. Í þáttunum ræðir Ásdís um vináttu þeirra, hver Ruja var í alvörunni, hvernig þetta allt gerðist og hvernig daglegu lífi þeirra var háttað í mörg ár.
Ruja Ignatova var besta vinkona Ásdísar Ránar og tókst að svíkja út tæpa þúsund milljarða íslenskra króna á heimsvísu áður en hún hvarf sporlaust í október árið 2017.
Ekkert hefur spurst til hennar og er hún á topp tíu lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir eftirsóttustu glæpamenn heims.
„Það hefur margt og mikið gerst í lífi mínu, bæði gott og slæmt. Það yrði góð mynd einn daginn! Eitt af því dramatískasta sem hefur gerst var þegar ég missti bestu vinkonu mína, og fyrir okkur var hún líka fjölskyldumeðlimur, Ruju Ignatovu fyrir fimm árum,“ segir hún um þættina.
„Fyrir mér er þetta saga af gáfaðri og sjálfstæðri konu með stóra drauma sem komst lífs af. Fyrir öðrum er þetta saga svindlara og glæpamanns.“
„Ég kynntist Ruju árið 2009, fyrir OneCoin, og við urðum strax bestu vinkonur og viðskiptafélagar. Þegar við vorum í sama landi vorum við nánast alltaf saman og gerðum það sem stelpur gera, okkur dreymdi, við hlógum, æfðum, fórum að versla, gerðum viðskiptaáætlanir, drukkum mikið vín og ferðuðumst,“ segir Ásdís Rán
„Þegar ég fylgdi henni þessa síðustu daga í raunheiminum skildi ég ekki hvað var í vændum, þó ég hafi fundið og séð að eitthvað væri í gangi, en ég kenndi bara pressunni í lífi hennar um. Ég vildi óska þess að ég hefði vitað meira svo ég hefði allavega getað kvatt hana. Mér þykir þetta leitt, Ruja. Við söknum þín.“
Aðspurð hvort þættirnir verða aðgengilegir hér á landi segir ísdrottningin að RÚV hljóti að koma til með að sýna þá þegar þeir fara í dreifingu.