Kona og karl voru sakfelld þann 30. september síðastliðinn, fyrir Héraðsdómi Reykjaness, fyrir margendurtekin fjársvik í IKEA.
Athæfi parsins var með þeim hætti að þau fóru í innkaupaferðir í IKEA-verslunina, afgreiddu sig sjálf á sjálfsafgreiðslukassa en settu röng strikamerki á vörurnar og keyptu þær þannig á margföldum afslætti.
Í dómnum eru tilgreindar fimm slíkar innkaupaferðir og meðal þess sem parið festi kaup á voru húsgögn, handklæði, rúmföt, lampar, veggljós og margt fleira.
Í fyrstu tilgreindu innkaupaferðinni keypti parið vörur að verðmæti 148 þúsund krónur á 4.500 krónur. Í annarri innkaupaferðinni voru vörur fyrir 31.000 krónur keyptar á rúmlega 3.000. Í þeirri þriðju keyptu þau vörur að andvirði 36.485 kr. fyrir aðeins 6.785 kr. Í fjórðu ferðinni voru keyptar vörur fyrir rúmlega 24.000 krónur á hálfvirði. Í fimmtu ferðinni voru vörur fyrir tæplega 60.000 krónur keyptar á innan við fimm þúsund krónur.
Fólkið játaði brot sín fyrir dómi og jafnframt var upplýst að þau hafa ekki gerst áður brotleg við lög.
Konan hafði sig meira í frammi en maðurinn í þessum sérstæðu innkaupum og hlaut 60 daga skilorðsbundið fangelsi en hann var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.