Steve Bruce, fyrrum fyrirliði Manchester United, hefur tjáð sig um varnarmanninn og núverandi fyrirliða liðsins, Harry Maguire.
Maguire hefur misst sæti sitt í liði Man Utd og hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarna mánuði. Enski landsliðsmaðurinn hefur verið mikið gagnrýndur á netinu sem og í fjölmiðlum.
Bruce hefur þó bullandi trú á landa sínum og hefur gefið honum góð ráð fyrir framtíðina.
,,Þegar þú spilar í miðverði eins og ég gerði þá viltu fá að spila í hverri viku. Ég tel að hann hafi fengið nokkuð ósanngjarna meðferð,“ sagði Bruce.
,,Hann er að ganga í gegnum erfiða tíma en svona er fótboltinn og hann þarf að vera harður og hundsa þetta tal á samskiptamiðlum.“
,,Hann þarf að einbeita sér að því að komast aftur í lið Manchester United og gera auðveldu hlutina vel. Ég þekki Harry mjög vel og hann er með mikinn metnað til að standa sig. Hann hefur aldrei valdið Englandi vonbrigðum.“