Jone Urrutia, fjölmiðlafulltrúi Bitácora-hótelsins á Tenerife, hefur haft samband við DV vegna fréttar miðilsins þar sem íslenskur gestur á hótelinu staðhæfði að þar geisaði magakveisa með útbreiddum niðurgangi og uppköstum. Einn úr hans hópi hefði fengið kveisuna en margir fleiri, honum óskyldir, hefðu veikst.
Málið var einnig til umfjöllunar í sumar, sjá eftirfarandi frétt:
Jone segist hafa orðið steinhissa við lestur fréttar DV því undanfarið hefði aðeins einn gestur, kona, kvartað undan magakveisu, en hún hefði ekki þegið boð hótelsins um læknishjálp. Viðmælendur DV í fréttinni á dögunum sögðust hafa viljað koma á framfæri ábendingum um að eitthvað yrði gert í málinu en þeim hefði verið mætt með hótunum um málsókn. Af þeim ástæðum vildu þau ekki koma fram undir nafni í fréttinni.
Jone segir ennfremur í vinsamlegum tölvupóstskrifum sínum við blaðamann DV:
„Það eru allt að 800 gestir hér stundum á sama tíma á hótelinu og því er eðlilegt að einhverjir séu slappir á einhverjum tímapunkti en það er ekkert veikindavandamál hérna á hótelinu. Því miður hafa margir viðskiptavinir uppgötvað þetta sem leið til að sleppa við að borga eða fá betra herbergi án endurgjalds (e. free upgrade). Þetta gerðist fyrir tveimur árum varðandi fjölda breskra viðskiptavina víðsvegar um Kanaríeyjar. Því máli lauk fyrir dómstólum.“
Ljóst er að fullyrðingar fjölmiðlafulltrúans stangast á við frásögn íslensku gestanna. Í samtölum við DV nefndu þau ekki að þau hefðu farið fram á afslátt eða betri herbergi.