fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Lögreglan kallaði Val í yfirheyrslu út af prósaljóði – „Þetta yrði bara skrípaleikur í dómsal“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 4. október 2022 15:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í júní, síðastliðið sumar, birti Valur Arnarsson, verkfræðingur og tónlistarmaður með meiru, prósaljóð á Twitter undir heitinu Játning þess siðblinda. Ljóðið er sett saman úr sex Twitter-tístum. Um er að ræða prósaljóð sem lýsir myrku hugarfari þeirrar persónu sem Valur er þar að draga upp.

Kona sem Valur hefur átt í deilum við á netinu tók ljóðið til sín og leit á það sem hótun gegn sér. Tekið skal fram að ljóðið var birt sem sjálfstætt tíst og án allra tengsla við umræddar deilur, sem hér verða ekki reifaðar frekar. Konan kærði Val til lögreglunnar fyrir hótanir, byggt á þessum skrifum á Twitter.

Í gær gerðist það síðan að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kallaði Val til yfirheyrslu vegna málsins og fór hún fram kl. 13 í gær en Valur fékk símtal frá lögreglu kl. 10 í gærmorgun. Valur er steinhissa á því að lögreglan hafi tekið málið til rannsóknar. „Mér finnst þetta líka skringilega fljót afgreiðsla miðað við mörg mikilvæg mál sem bíða hjá lögreglu og sitja á hakanum,“ segir Valur í spjalli við DV.

„Titillinn er „Játning hins siðblinda“ og síðan koma gæsalappir utan um þessa játningu. Þannig að hér er ég augljóslega að skrifa um skáldaða persónu. Ég var ekkert að hugsa um þessa manneskju þegar ég skrifaði þennan prósa í sumar. Ef ég væri í raun að hóta henni þarna þá myndi ég ekki tala svona um sjálfan mig, um skítuga sál og fleira þess háttar.“

Valur skrifaði mörg myrk prósaljóð á sínum yngri árum og segir hann að ef einhver hefði tekið ljóð hans sem hótun til sín, til dæmis á ljóðaupplestri á árunum í kringum 1990, þá hefði það alveg eins getað orðið að lögreglumáli, rétt eins og þessi skrif.

„Þetta sýnir að frelsið sem við höldum að við höfum er bara blekking,“ segir Valur og er nokkuð niðrifyrir. Hann telur þó fullvíst að rannsókn verið felld niður eftir þær skýrinsgar sem hann gaf lögreglu í yfirheyrslunni í gær.

„Ég fékk óbeina hótun frá lögreglunni, um að ég ætti að passa mig á því að tala meira um þess konu og ég ætti ekki að birta svona ljóð aftur á Twitter. Þetta er mjög áhugavert,“ segir Valur með áherslu.

„Ég átta mig ekki á því hver er drifkrafturinn hjá lögreglu á bak við það að fara fram með þetta mál,“ segir hann ennfremur en umrætt prósaljóð er eftirfarandi:

Játning þess siðblinda:

„Ég ætla að kæra þig, en það er samt ekki satt, skiptir ekki máli enda er þessi hótun bara til að skapa hjá þér ótta um fjárhagslegt óöryggi. Lögfræðingurinn minn mun sjá um mál mitt fyrir mig

…sem er heldur ekki satt því ég er í raun ekki með neinn lögfræðing. En þú veit það náttúrulega ekki. Ég ætla líka að kæra þig til lögreglunnar fyrir það sem þú gerðir. Ég veit að það er ekki mögulegt en kannski veist þú það ekki.

Mér finnst í raun að lögreglan ætti alltaf að vinna með mér á móti þeim sem valda mér vandræðum. Ég veit að það sem þú sagðir gegn mér er rétt en það skiptir ekki máli. Ég ætla samt að skapa hjá þér nógu mikinn ótta

Málfrelsið mitt er mikilvægt vegna þess að ég hef alltaf rétt fyrir mér og er að vinna að málstað sem er samfélagslega mikilvægur. Ég ætti að geta sagt hvað sem er. Fólk eins og þú ætti hins vegar alltaf að fá á sig kæru þegar þið tjáið ykkur um mig og mína líka.

Þar sem réttarkerfið virkar ekki fyrir mig þá ætti ég í raun að beita þig ofbeldi. Ég ætti að hóta þér á þann hátt að þú óttist um heilsu þína, velferð og líf. Lögreglan ætti ekki að skipta sér af því.

Til vara ætla ég að skapa svo mikið hatur í þinn garð með plattforminu mínu að aðrir munu sjá um ofbeldið gegn þér, þá þarf ég ekki að óhreinka mína, nú þegar, skítugu sál. En allt á þetta rétt á sér og mun skapa hamingju í mínu litla og siðblinda hjarta“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Talaði Trump af sér?

Talaði Trump af sér?
Fréttir
Í gær

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“
Fréttir
Í gær

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“
Fréttir
Í gær

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var
Fréttir
Í gær

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður