Nokkrir stuðningsmenn Víkings R. sýndu af sér óæaskilega hegðun á bikarúrslitaleiknum gegn FH á Laugardalsvelli á laugardag.
Félagið harmaði þetta í yfirlýsingu í gær. „Í kjölfar glæsilegs sigurs Víkings í Mjólkurbikarkeppni KSÍ, þriðja árið í röð, hefur komið upp neikvæð umræða um framkvæmd leiksins og hegðun stuðningsmanna,“ segir í yfirlýsingu Víkinga.
„Knattspyrnufélagið Víkingur harmar mjög framkomu einstakra stuðningsmanna sem settu ljótan svip á leikinn. Hátt í 3000 stuðningsmenn Víkings voru á leiknum sem nær allir hegðuðu sér óaðfinnanlega en nokkur skemmd epli settu ljótan blett á frábæra stuðningsmannasveit.“
Ómar Smárason, samskiptastjóri KSÍ, tjáði sig um málið við Vísi í dag.
„Ég held að hálfvitar verði alltaf hálfvitar. Það er fátt sem stoppar hálfvita í að hegða sér eins og hálfviti ef hann ætlar að gera það á annað borð. Þá breytir engu hversu margir eru í gæslunni. Það er kjarninn í þessu,“ segir Ómar.
„Uppsetningin á gæslunni er alltaf metin fyrir hvern einasta leik. Núna erum við í endurmati eins og eftir alla leiki. Eitt af því sem við erum að skoða er framkvæmdin í heild sinni, þar á meðal þessi atvik sem komu upp. Gæslan var eins og hún átti að vera.“