Fjöldi félaga í MLS-deildinni vestanhafs hafa fylgst með gangi mála hjá Lionel Messi í töluverðan tíma. Að sögn El Chringuito eru þau þó ekki bjartsýn á að fá hann næsta sumar.
Samningur hins 35 ára gamla Messi við Paris Saint-Germain rennur út næsta sumar. Hann kom til félagsins í fyrra, þar sem Barcelona hafði ekki efni á að endurnýja samninginn við hann. Messi hafði verið á mála hjá Börsungum allan sinn meistaraflokksferil.
Það er eðlilegt að félög víða horfi til þess að Messi verði samningslaus næsta sumar. Þau félög í MLS-deildinni sem hafa áhuga búast þó við því að Argentínumaðurinn snúi aftur til Barcelona næsta sumar.
Talið er að dyrnar standi enn opnar fyrir Messi í Katalóníu. Félagið er tilbúið að leyfa honum að klára feril sinn þar sem hann byrjaði hann.