Katrín Jakobsdóttir óskaði nýlega eftir því að teknar yrðu saman upplýsingar um hversu oft skipað sé í embætti hjá hinu opinbera án þess að embættið sé auglýst. Nú hefur forsætisráðuneytið greint frá niðurstöðum þessarar samantektar sem gerð var fyrir tímabilið 2009 til 2022 og kemur þar fram að í um 80 prósent tilfella sé skipað í embætti í kjölfar auglýsingar, en það felur í sér að í um 20 prósent tilvika er það ekki gert.
Ef flutningar embættismanna, í tengslum við breytingar á skipulagi stofnana eða ráðuneyta eru ekki taldar með þá fer hlutfall skipana í kjölfar auglýsingar upp í rúm 90 prósent.
Þegar töflur sem birtar eru með samantektinni eru skoðaðar má sjá að færst hefur í aukarnar undanfarin ár að embættismenn séu fluttir í annað embætti án auglýsingar. En það átti sér stað sjö sinnum á þessu ári, einu sinni árið 2020, sjö sinnum árið 2019 og átta sinnum ár árunum 2014-2018. Enginn slíkur flutningur átti sér stað á árunum 2010-2013 en fimm voru fluttir með þessum hætti árið 2009.
Á tímabilinu 2011-2013 voru 20 einstaklingar fluttir í annað embætti vegna skipulagsbreytinga og 14 voru fluttir í annað embætti vegna skipulagsbreytinga á árunum 2017-2022.
Af þeim sem hafa verið fluttir í embætti án auglýsingar, án þess að það tengist skipulagsbreytingu eru níu ráðuneytisstjórar, átta skrifstofustjórar í ráðuneytum og ellefu sem flokkast sem aðrir embættismenn.
Af tölfræðinni sést einnig að fyrir árin 2009-2022 voru ráðuneytisstjórar oftar skipaðir án auglýsingar heldur en embættið var auglýst, en ellefu ráðuneytisstjórar voru skipaðir á grundvelli ákvæðis laga um flutning í embætti á þessu tímabili á meðan embættin voru auglýst átta sinnum.
Skrifstofustjórar í ráðuneytum voru 63 sinnum skipaðir að undangenginni auglýsingu á tímabilinu en 38 sinnum á grundvelli flutnings. Önnur embætti voru auglýst 196 sinnum á meðan skipað var án auglýsingar í átján tilvikum. Ekki er nánar greind frá því hvaða embætti það voru sem ekki voru auglýst.
Í samantektinni eru ekki upplýsingar um lögreglumenn, ekki um dómara og ekki er þar að finna upplýsingar um það þegar flutningsheimild var beitt við endurskipulagningu á embættaskipan lögreglu og sýslumanna árið 2015.
Samantektin náði til 334 embættiskipana af þeim voru 267 gerðar í kjölfar auglýsingar en í 67 tilfellum var embættismaður fluttur í annað embætti, ýmist á grundvelli flutningsheimildar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eða á grundvelli sérstakra lagaheimilda.