Samkvæmt frétt ESPN taldi Ole Gunnar Solskjær sig vera nálægt því að krækja í framherjann Erling Braut Haaland til Manchester Unitedí lok árs 2019 fyrir um 20 milljónir evra. Það gekk hins vegar ekki eftir.
Á þessum tímapunkti var Haaland hjá RB Salzburg í Austurríki. Solskjær var stjóri United. Framherjinn fór svo til Dortmund í janúar, þar sem hann átti eftir að slá í gegn.
Ed Woodward, þá stjórnarformaður United, var hins vegar ekki til í að taka sénsinn á Haaland í janúar 2020. Hann taldi umboðsmann leikmannsins, Mino Raiola, krefjast of hárra greiðslna til sín. Þá heillaði það Woodward ekki að fulltrúar Haaland vildu að klásúla yrði í samningi hans, sem myndi gera félögum kleift að kaupa hann fyrir ákveðna upphæð.
Dortmund var til í að hafa klásúlu í samningnum. Hún virkjaðist hins vegar ekki fyrr en í ár. Það nýtti Manchester City sér og keypti Haaland á 64 milljónir punda.
Talið er að klásúla sé einnig í samningi Haaland hjá City. Hann má fara fyrir um 175 milljónir punda sumarið 2024. Ári síðar má hann fara ef tilboð upp á rúmlega 150 milljónir punda berst.