Maður sem fór með fjölskyldu sína á veitingastað í Breiðholti að kaupa mat í gærkvöld varð fyrir árás ókunnugs manns. Maðurinn réðst á hann af tilefnislausu. Árásarmaðurinn var í annarlegu ástandi og var handtekinn á staðnum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um áverka vegna árásarinnar.
Tilkynnnt var um atvikið laust eftir kl. 19 í gær en greint er frá þessu í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að maður gekk viljandi fyrir bíl á Reykjanesbraut laust fyrir kl. 18 í gær. Hlaut hann áverka á ökkla og skurði á olnboga. Bíllinn skemmdist á vélarhlíf.
Á fimmta tímanum í nótt var kona handtekin í miðbænum fyrir að veitast að dyravörðum veitingastaðar og spark í lögreglubíl. Konan var síðan látin laus að loknu samtali við lögreglu.
Umferðaróhapp varð á Elliðavatnsvegi á þriðja tímanum í nótt. Ökumaður missti stjórn á bíl sínum og ók út af veginum. Bíllinn hafnaði töluvert utan vegar og var mikið skemmdur eftir óhappið. Hafði m.a. ekið yfir stórt grjót og endaði í runna. Ökumaður og einn farþegi í bifreiðinni voru í bílnum en ekki eru skráðír neinir áverkar í skýrslu.