Lisandro Martinez, leikmaður Manchester United, fær erfitt verkefni á morgun er hann leikur gegn Erling Haaland, framherja Manchester City.
Haaland er heitasti framherji Evrópu um þessar mundir og hefur raðað inn mörkum í Manchester síðan hann kom frá Dortmund í sumar.
Martinez mun fá það verkefni að stöðva Haaland á morgun en hæðamunurinn á leikmönnunum er mikill – varnarmaðurinn er aðeins 175 sentímetrar sem hefur verið umræðuefni í dágóðan tíma.
Jamie Carragher, goðsögn Liverpool, er með ráð fyrir Erik ten Hag, stjóra Man Utd, sem og Martinez fyrir grannaslaginn.
,,Besta ráðið sem Erik ten Hag getur gefið Lisandro Martinez er að segja honum að halda sig frá Haaland,“ sagði Carraher.
,,Sum einvígi vinnast á líkamlegum styrk eða með því að vera sniðugri en andstæðingurinn. Martinez þarf að vera sá sniðugasti ef hann ætlar að hafa betur um helgina.“