Manchester United reyndi í sumar að semja við sóknarmanninn Marko Arnautovic sem þekkir vel til ensku úrvalsdeildarinnar.
Arnautovic gerði vel með Stoke og West Ham á sínum tíma áður en hann hélt til Kína og síðar Bologna á Ítalíu.
Framherjinn leikur með Bologna í dag en hann er 33 ára gamall og er einn allra mikilvægasti leikmaður liðsins.
Um tíma var talið að mótmæli stuðningsmanna Man Utd hafi komið í veg fyrir skiptin til Manchester en það er ekki rétt.
Það segir Marco Di Vaio, yfirmaður knattspyrnumála Bologna, en stuðningsmenn Man Utd voru margir alls ekki hrifnir af því að fá leikmanninn á Old Trafford.
,,Við höfum náð að vinna vel með Marko. Við höfum alltaf undirstrikað hversu mikið við treystum honum,“ sagði Di Vaio.
,,Juventus sendi aldrei inn alvöru beiðni en Manchester United gerði það svo sannarlega. United hætti ekki að reyna vegna stuðningsmannana, það var vegna þess að Marko vissi hversu mikilvægur hann væri fyrir verkefnið hjá Bologna.“
,,Hann kom fram eins og alvöru sigurvegari, hann áttaði sig á hversu mikilvægur hann var fyrir Bologna og borgina. Hann hjálpar ungum leikmönnum og er smá ‘enskur’ í hvernig hann kemur fram. Hann gefur okkur allt.“