fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Var ætlað að verða fullkomið eintak af manneskju en greiddi það dýru verði – Átakanleg saga greindasta manns heims

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 2. október 2022 20:30

William James Sidis

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allir þekkja Albert Einstein, föður afstæðiskenningarinnar og klárasta mann sögunnar? Eða voru öðrum honum fremri í greind ? Leonardo da Vinci kannski?

En hvað með William James Sidis? Snillinginn sem barðist við að fóta sig í heimi sem hann ekki skildi og ekki skildi hann? Manninn sem var hugsanlega gáfaðasti einstaklingur allara tíma?

Þjálfunin hófst daginn sem William kom í heiminn.

Með þrefalda greind meðalmanns

Talið er að greindarvísitala William James Sidis hafi verið einhvers staðar á milli 250 og 300.

Til að setja hlutina í samhengi má nefna að meðalmaðurinn er á vappinu í kringum hundraðið og allt yfir 130 er flokkað sem afburða greind.  Eðli málsins samkvæmt fóru snillingar fortíðar ekki í nútíma próf til mælingar á greindarvísitölu en talið er að Albert Einstein hafi skorað um 160, Leonardo da Vinci um 180, og Isaac Newton farið upp í 190.

Elon Musk bliknar í samanburði með áætlaða greindarvísitölu upp á 150.

Hvernig stendur því að nafn William James Sidis er svo að segja algjörlega óþekkt? Snillingsins sem talaði 25 tungumál og spáð hafði verið áður óþekktri heimsfrægð á sviði vísinda þegar hann var aðeins ellefu ára gamall?

Fullkomið eintak 

William James Sidis var fæddur 1898, sonur Boris og Söhru Sidis, sem flúð höfðu gyðingaofsóknir í Úkraínu. Bæði voru þau býsna snjöll og rúmlega það. Boris var sálfræðingur, vel þekktur en jafnframt umdeildur fyrir rannsóknir sínar á sviði geðraskana, og Sarah var ein örfárra kvenlækna þeirra tíma. Bæði þóttu þau skara fram úr á sínum sérsviðum.

En Sidis hjónunum fannst eitthvað vanta. Þau vildu barn en ekkert venjulegt barn. Þau vildu snilling. Búa til eitt fullkomið eintak af manneskju.

Þjálfunin hófst daginn sem William fæddist. Sarah hætti störfum sem læknir og með dyggri aðstoð manns síns hóf hún þjálfun William litla með hernaðarlegri nákvæmni. Nýtti Boris alla sína þekkingu í sálfræði til að móta ungan huga sonar síns, hugsanlega með aðstoð dáleiðislu, sem Boris sérhæfði sig í.

Frægur á fyrsta árinu

Það var snemma augljóst að William var ekki eins og önnur börn. Hann byrjaði að tala sex mánaða, gat borðað sjálfur átta mánaða gamall og las The New York Times fyrir tveggja ára aldurinn.

Boris og Sarah voru afar stolt af drengnum en ekki síður af kennslu sinni og birti Boris reglulega ritgerðir í sálfræðiritum um aðferðarfræðina þar að baki. William James var því orðin vel þekktur innan fræðasamfélagsins fyrir fyrsta afmælisdaginn.

Líf Williams snerist um nám og meira nám.

Öll athygli foreldranna var á litla snillingnum og aldrei tekin pása við verkefnið. Sagði William seinna að hann hefði aldrei fengið augnabliks frið til að fá að vera barn, leika sér og umgangast jafnaldra.

Líf hans snerist um að afla þekkingar og vera svo prófaður i henni.

Aldrei barn

Stærðfræði, tungumál, heimspeki, líffræði….Hús Sidel fjölskyldunnar var fullt bóka um allt milli himins og jarðar en þó var þar aldrei barnabók að finna.

Sérstaka áherslu lögðu þau á að sonurinn lærði tungumál. Sem hann heldur betur gerði því að aðeins sex ára að aldri talaði William ensku, frönsku, þýsku, rússnesku, hebresku, tyrknesku og armenísku reiprennadi. Hann bjó einnig til sitt eigið tungumál með fullkominni málfræði, samdi ljóð, skrifaði skáldsögu og gerði meira að segja drög að stjórnarskrá fyrir nýjan og bættan heim.

Allt þetta afrekaði William fyrir sinn áttunda afmælisdag.

William James Sidis var langt frá því að vera líkur venjulegu barni.

Í Harvard 9 ára

William fékk inngöngu í hinn virta Harvard háskóla aðeins níu ára en þó með því skilyrði að hann mætti ekki í kennslustundir fyrr en hann næði ellefu ára aldri. Næstu tvö árin fóru því að læra stærðfræði við Tufts háskóla en William var svo fljótur að klára námsefnið að hann sneri sér að því að lagfæra villur í kennslubókum og yfirfara afstæðiskenningu Einsteins frá öllum sjónarhornum. 

Árið 1909 fékk William loks  að hefja formlega nám við Harvard og þótt aðeins 11 ára gamall var hann talin sá klárasti í hópi annars mikilla fræðimanna og hugsuða sem stunduðu nám við skólann á sama tíma. Á fyrsta ári námsins var slegist um miða á hans fyrsta fræðafyrirlestur en sá var það djúpur að aðeins hinir innvígðustu á sviði stærðfræði og eðlisfræði skildu hvað drengurinn var að tala um.

Hélt vísindasamfélagið ekki vatni yfir þessu undrabarni. En það sem fæstir vissu var að dvölin í Harvard var William afar erfið. Ekki aðeins var hann langtum yngri en samnemendur sínir, barn í heimi uppkominna, heldur var hann þeim einnig mun klárari.

Af því leiddi öfund, baknag og skefjalaust einelti sem gerði árin í skólanum að sannkölluðu helvíti fyrir drenginn.

,,Fullkomið líf“

William útskrifaðist 16 ára gamall. Hann var landsþekktur og slógust blaðamenn um að ræða við drenginn um hvað nú tæki við. Samþykkti William með tregðu að tala við einn þeirra og sagði hann í viðtalinu vilja ,,fullkomið líf.” Aðspurður um nánari skýringu sagðist hann vilja fá að vera í friði, njóta einveru.

,,Ég hef alltaf hatað að vera innan um mikið af fólki,” sagði unglingurinn, sem hafði aldrei fengið augnabliks næði alla sína stuttu ævi.

William um tvitugt.

William hóf að kenna stærðfræði við háskóla í Houston í Texas en hætti fljótlega. Bæði fannst honum frægðin illþolandi auk þess sem hann var mun yngri en nemendur hans sem stundum leiddi til óþægilegra uppákoma.

Því næst hóf hann námi í lögfræði við Harvard en var vansæll. Gömul sár tóku sig upp og hætti William lögfræðináminu eftir örfáa mánuði.

Pólitík og ást

Undrabarnið var að fullorðnast og vissi ekkert hvað gera skyldi við líf sitt. Hann leitaði á náðir stjórnmála á vinstri vængnum og var handtekinn þegar hann tók þátt í mótmælagöngu.

Í steinunum kynntist hann írskum, blóðheitum, sósíalista, Mörthu Foley, sem var honum ári eldri, en samband þeirra gekk brösuglega.

Sennilegast má um kenna hversu óhefðbundið uppeldi William fékk. Hann fékk aldrei að vera ,,venjulegt” barn né unglingur. William átti aldrei vini, umgekkst aldrei jafnaldra, gekk ekki í grunnskóla og tók ekki þátt í íþróttum eða leikjum. Hann hafði haft afar takmörkuð samskipti við kvenkynið.  Hann vissi langtum meira en önnur ungmenni, en samt svo mikið minna.

Martha Foley

William átti því erfitt með að fóta sig í samfélagi, fullu af ósýnilegum gildum, siðum og venjum, gjörólíkum þeim í háskóla- og fræðimannasamfélaginu, sem var í raun það eina sem hann þekkti.

Því slitnaði upp úr sambandinu við Mörthu. Hún giftist síðar og stóð framarlega í kvenréttindabaráttu alla sína ævi. En í huga Williams var hún ætíð eina konan sem hann elskaði.

Slapp við steininn

Þegar William stóð fyrir rétti, ásakaður um uppdiktað,,kommúnískt samsæri” lýsti hann hátt og snjallt yfir að guð væri ekki til og að öll vandamál heimsins mætti rekja til kapítalisma. Það þótti ekki góð latína í amerískum dómssal og var kauði dæmdur til átján mánaða fangelsisvistar.

Rataði það að á síður fjölda dagblaða um öll Bandaríkin, slík var frægð Williams.

Foreldrar hans höfðu nógu góð sambönd til að sannfæra réttinn um að sleppa stráknum við fangelsi. Þess í stað skyldi hann búa hjá þeim, fara í sálfræðimeðferð til föður síns og kenna við MIT háskólann í heimaborg þeirra, Boston. Lofuðu þau að binda enda á allt kommabull í pilti.

Loksins frelsi

Árið 1921 var William loksins laus úr vistinni hjá foreldrum sínum og MIT.  Hann var 22 ára gamall, loksins frjáls, og búinn að taka ákvörðun um líf sitt.

Var sú stefna eins langt frá væntingum foreldra hans, svo og vísindasamfélagsins, sem vera mátti. 

Boris Sidel. William sleit öllu sambandi við foreldra sína.

William sneri baki við fræðimennsku, svo háskólasamfélaginu öllu. Hann sleit á einnig á öll samskipti við foreldra sína og talaði aldrei við þau aftur.

William fékk sér litla íbúð og vann fjölda láglaunastarfa, oftast við skrifstofubókhald, en sagði stærðfræðiformúlur vekja með sér ógeð.  En um leið og einhver kollegi þekkti hann sem Harvardundrið lét hann sig umsvifalaust hverfa.

Árið 1924 gróf blaðamaður nokkur hann uppi og skrifaði háðuglega grein um ömurlegt líf undrabarnsins sem nú ætti vart til hnífs og skeiðar. William tók greinina afar nærri sér og dró sig svo að segja alfarið inn í eigin skel.

,,Það eina sem ég vil gera er að fá að vinna við reiknivélina mína í friði. En um leið og fólk veit hver ég er fæ ég engan frið,” sagði hann þegar hann var krafinn um svör.

,,Aprílgabbið“

William flakkaði á milli borga, íbúða og starfa næstu árin, alltaf einn, hálfgerður aðskotahlutur samfélagi sem hann aldrei náði að fóta sig í.

Hann var einangraður í búri sinnar ofurmannlegur greindar.

En honum leið best í einverunni og skrifaði fjölda bóka undir dulnefnum sem fæstir botnuðu í og enn færri keyptu. Ein þeirra hlaut meðal meðal annars hinn vafasama heiður að vera kölluð ,,leiðinlegasta bók veraldarsögunnar.” Inn á milli má þó finna í bókum hans gullmola sem nýst hafa síðari tíma fræðimönnum.

William er um fertugt á þessari mynd. Fátt er til af ljósmyndum af honum frá þessum tíma.

Árið 1937 fóru blaðamenn aftur að sniglast um og birti tímaritið The New Yorker grein fyrsta apríl það sama ár sem einmitt var afmælisdagur Williams. Sú hét ,,Aprílgabb” og lýsti risi, en þó aðallega stórfenglegu falli, snillingsins á afar niðurlægjandi hátt. Höfundur greinarinnar hafði fylgt honum eftir og tekið viðtöl við vinnufélaga og nágranna.

Var honum lýst sem barnalegum furðufugli, undrabarni sem aldrei neitt varð úr, og var því meðal annars lýst hvernig hann hefði brostið í grát þegar honum fannst of mikið álag í vinnunni.

Endalokin

William var eyðilagður maður við birtingu greinarinnar en ákvað að svara fyrir sig og fór í mál við tímaritið fyrir ærumeiðingar. Málið mallaði í sjö ár fyrir dómstólum og fór allt upp í Hæstarétt. Dómurinn sem að lokum féll var fordæmisgefandi og er enn kenndur lögfræðinemum í Bandaríkjunum. Í honum segir að hafi manneskja einu sinni verið þjóðþekkt megi alltaf telja hana þjóðþekkta og leyfilegt að ganga mun lengra í umfjöllun um William en hinn ,,venjulega” borgara.

Þeir fáu sem eitthvað þekktu til Williams sögðu niðurstöðu dómsins hafa brotið hann endanlega niður. Hann hætti að fara út, lokaði sig af í sinni litlu íbúð og dró fram lífið á þeim smáaurum sem bækurnir skiluðu öðru hverju.

Í júlí árið 1944 kom leigusali William að honum liggjandi á gólfinu. Hafði hann fengið heilablóðfall og komst aldrei til meðvitundar. William dó eins og hann kaus að lifa, aleinn.

William James Sidis var 46 ára þegar hann lést. Aðeins eina ljósmynd var að finna í íbúðinni.

Mynd af Mörthu Foley.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“