Í morgun fóru af stað sögur þess efnis að Christopher Nkunku myndi ganga til liðs við Chelsea næsta sumar og að hann hafi þegar farið í læknisskoðun.
Virtir blaðamenn gengu svo langt að staðfesta þessi tíðindi.
Nú heldur blaðamaður L’Equipe því hins vegar fram að félagaskiptin séu ekki komin svona langt á veg. Leikmaðurinn hafi farið í læknisskoðun í Frankfurt. Hún hafi hins vegar ekki verið á vegum Chelsea.
Nkunku er 24 ára gamall og er á mála hjá RB Leipzig í Þýskalandi.
Nkunku hefur verið á mála hjá Leipzig síðan 2019. Hann kom frá Paris Saint-Germain í heimalandinu, en hann er uppalinn hjá Parísarfélaginu.
Flestir eru á því að hann sé á leið til Chelsea.