Hugarafl bauð til opnunarhátíðar í nýjum húsakynnum félagsins að Síðumúla 6 í gær. Eliza Reed forsetafrú heiðraði félagið með komu sinni auk þess sem Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hélt tölu um mikilvægi grasrótar í geðheilbrigðismálum. Fjöldi fólks mætti á opnunarhátíðina og var boðið upp á veitingar í tilefni dagsins.
Félagasamtökin Hugarafl er opið úrræði fyrir fólk með andlegar áskorannir auk þess sem þar fer einnig fram mjög öflug endurhæfing. Þátttaka í starfsemi Hugarafls er fyrir 18 ára og eldri, sem hafa áhuga á að vinna í geðheilsu sinni á eigin forsendum. Starfsemin er algjörlega gjaldfrjáls, óháð búsetu og engin krafa er gerð um tilvísanir né geðsjúkdómagreiningar. Þá hafa samtökin verið ötul við að láta í sér heyra til að hafa áhrif á íslenskt geðheilbrigðiskerfi allt frá stofnun þeirra árið 2003.
„Við erum afar ánægð með að opna þessi nýju og góðu húsakynni félagsins. Þetta eru rúmir 700 fermetrar sem opna á mikla möguleika hjá okkur og veitir ekki af. Það er gríðarleg aðstókn til okkar en við leggjum mikið uppúr fallegri umgjörð í kringum starfið okkar. Við lítum á Hugarafl sem sameiginlegan vinnustað okkar allra sem komum þangað. Þá eru miklir möguleikar og margt í farvatninu varðandi ennþá fjölbreyttari sjálfshjálparhópa. Þá leggjum við líka mikla áherslu á jóga og listsköpun þ.m.t. tónlist, myndlist ofl í starfinu og má segja að umgjörðin í kringum það séu gerð sérlega góð skil. Það má segja að hugmyndafræði okkar sem er valdefling og bati sé í hávegum höfð í öllu sem kemur að okkar starfi,“ segir Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls.