Víkingur Reykjavík er mun sigurstranglegri í úrslitaleik Mjólkurbikars karla gegn FH á morgun ef marka má veðbanka.
Liðin mætast í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli klukkan 16 á morgun.
Víkingur er ríkjandi meistari. Liðið vann ÍA í úrslitaleik í fyrra. Víkingur vann keppnina einnig 2019, þá einmitt gegn FH.
Bikarkeppnin var ekki kláruð árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins og getur Víkingur því í raun unnið bikarinn þriðja tímabilið í röð.
Samkvæmt Lengjunni er Víkingur mun sigurstranglegri á morgun. Stuðullinn á að lærisveinar Arnars Gunnlaugssonar sigri er 1,6. Á meðan er stuðullinn á að FH beri sigur úr býtum 3,9.
Það er þó aldrei að vita hvað gerist í bikarúrslitaleik, eins og hefur gjarnan sýnt sig í gegnum tíðina.