Kona ein var þann 27. september síðastliðinn fundin sek í Héraðsdómi Reykjaness um innflutning á rúmlega 400 grömmum af kókaíni. Efnin flutti konan innvortis í 33 pakkningum en þau voru ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Konan kom með efnin til landsins í flugi frá Vín í Austurríki þann 14. ágúst síðastliðinn.
Konan játaði brot sín fyrir dómi. Í dómi Héraðsdóms er henni virt það til refsilækkunar, sem og sú staðreynd að hún skipulagði ekki sjálf smyglið. Í dómnum segir:
„Ákærða hefur ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að hún hafi verið eigandi nefndra fíkniefna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu. Verður litið til þessara atriða við ákvörðun refsingar, sem og til greiðrar játningar ákærðu fyrir dómi. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að ákærða flutti til landsins töluvert magn af fremur sterku kókaíni sem ætlað var til söludreifingar hér á landi.“
Konan var dæmd í sjö mánaða fangelsi og til að greiða rúmlega eina og hálfa milljón króna í málskostnað.