Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH, er brattur fyrir komandi bikarúrslitaleik gegn Víkingi Reykjavík.
„Þetta leggst frábærlega í mig. Undirbúningurinn hefur verið mjög góður. Það virðist sem hópurinn sé hundrað prósent, allir heilir fyrir utan fáein högg í síðasta deildarleik,“ segir Eiður við 433.is.
Það hefur lítið gengið upp hjá FH í Bestu deildinni á þessari leiktíð. Liðið er í ellefta sæti nú þegar henni hefur verið skipt upp. Í bikarnum hefur gengið hins vegar verið allt annað.
„Þetta er allt önnur keppni. Bæði lið eru taplaus í þessari keppni. Deildin er eitthvað sem við höfum lagt til hliðar og tökumst á við eftir bikarúrslitaleikinn. Við vitum öll stöðuna þar, ég nenni ekki að spá í því,“ segir Eiður.
Slæm staða í deildinni breytir ekki þýðingu úrslitaleiksins að sögn Eiðs.
„Það væri stórt (að vinna bikarúrslitaleikinn) alveg sama hver staðan væri í deildinni.“
Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.